Embættiskostnaður sóknarpresta

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 17:03:05 (1116)

1998-11-16 17:03:05# 123. lþ. 24.27 fundur 232. mál: #A embættiskostnaður sóknarpresta# frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[17:03]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um embættiskostnað sóknarpresta og aukaverk þeirra. Með frv. er lögð til sú breyting á lögunum að þjónandi prestar og prófastar fái greiddan rekstrarkostnað embætta sinna frá biskupsstofu samkvæmt reglum sem kirkjuþing setur.

Með hliðsjón af auknu sjálfstæði kirkjunnar í kjölfar gildistöku laga um stöðu, stjórn og starfshætti kirkjunnar frá árinu 1997 var ákveðið að gerður yrði samningur við embætti biskups Íslands um yfirtöku á rekstrarkostnaði vegna prestsembætta og prófasta, rekstrarkostnaði biskupsstofu, framlagi til Kristnisjóðs og sérframlögum til þjóðkirkjunnar.

Samningur þessi var undirritaður 4. september sl. af biskupi Íslands, dóms- og kirkjumrh. og fjmrh. og tekur samningurinn gildi 1. janúar nk. Í samningnum sem birtur er sem fskj. með frv. er gert ráð fyrir því að þær breytingar verði gerðar á lögum um embættiskostnað sóknarpresta sem lagðar eru til með frv. þessu. Í frv. er lagt til að lögin taki gildi um leið og samningurinn.

Herra forseti. Ég hef gert grein fyrir efnisákvæði frv. og legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og meðferðar hjá hv. allshn.