Landhelgisgæsla Íslands

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 17:04:32 (1117)

1998-11-16 17:04:32# 123. lþ. 24.28 fundur 233. mál: #A Landhelgisgæsla Íslands# frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[17:04]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um Landhelgisgæslu Íslands.

Með frv. er lagt til að í lögunum verði mælt fyrir um samningsgerð við smíði varðskipa og viðhald þeirra. Þykir nauðsynlegt að reglur þar að lútandi verði lögfestar áður en hafin verður fyrirhuguð smíði á nýju varðskipi.

Samkvæmt lögum um Landhelgisgæsluna er eitt helsta hlutverk hennar að hafa með höndum almenna löggæslu á hafinu umhverfis landið, jafnt innan sem utan landhelgi. Einnig ber Gæslunni að tilkynna, fjarlægja eða gera skaðlaus reköld, tundurdufl, sprengjur eða aðra hluti sem sjófarendum og almenningi getur stafað hætta af. Þá ber Landhelgisgæslunni að aðstoða við framkvæmd almannavarna eftir því sem ákveðið verður hverju sinni. Með hliðsjón af eðli þessara verkefna Landhelgisgæslunnar er nauðsynlegt vegna öryggishagsmuna að fullur trúnaður ríki um gerð og eiginleika varðskipa. Því þykir ekki fært að viðhafa útboð á alþjóðlegum markaði við smíði varðskipa og er lagt til að heimilt verði að leita tilboða frjálst hjá einum eða fleiri verktökum eða seljendum tækjabúnaðar í varðskip. Með þessu móti verður frekar búið svo um hnútana að öryggishagsmunir verði að fullu tryggðir.

Á grundvelli sömu sjónarmiða og hér hafa verið rakin getur verið ástæða til að víkja frá almennum reglum um útboð varðandi viðhald varðskipa. Þetta getur þó ekki átt við í öllum tilvikum og verður að meta hverja framkvæmd fyrir sig í þessu tilliti. Með hliðsjón af þessu er lagt til að sama regla gildi um viðhaldsverkefni þegar sérstakir öryggishagsmunir krefjast. Ef ekki er um slíka hagsmuni að ræða ber hins vegar að fara með viðhaldsverkefni eftir almennum reglum.

Við samningu frv. hefur verið litið til skuldbindinga okkar um opinber innkaup samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Þær skuldbindingar hindra ekki aðildarríki samningsins til að gera ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að girða fyrir uppljóstrun upplýsinga andstætt mikilvægum öryggishagsmunum viðkomandi ríkis. Frv. er reist á þessum sjónarmiðum og hefur því verið gætt þjóðréttarlegra skuldbindinga Íslands.

Herra forseti. Ég hef gert grein fyrir efni frv. og legg til að því verði vísað að lokinni þessari umræðu til 2. umr. og meðferðar hjá hv. allshn.