Orkusjóður

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 17:56:56 (1129)

1998-11-16 17:56:56# 123. lþ. 24.31 fundur 225. mál: #A Orkusjóður# frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[17:56]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Það er hárrétt hjá hæstv. iðnrh. að Alþingi veitti leyfi til Fljótsdalsvirkjunar á sínum tíma. Það veit hæstv. ráðherra einnig að á þeim tíma sem liðinn er síðan þetta leyfi var gefið hafa forsendur breyst. Við getum sagt að hugmyndir þjóðarinnar um hálendið hafi breyst. Umhverfissjónarmið eru orðin miklu sterkari þáttur í umræðunni en áður var þegar fólk, þjóðin, hugsaði fyrst og fremst um að virkja fallvötn til að auka raforkuframleiðslu svo hægt væri að koma upp meiri stóriðju til að skapa hér atvinnu. Það er út af fyrir sig skiljanlegt sjónarmið. En í dag eru menn ekki tilbúnir að ég held, herra forseti, til að fórna þeim náttúruperlum sem uppgötvaðar hafa verið fyrir almenning á síðustu árum. Þess vegna er það miklu frekar spurning um hvernig eigi að koma í veg fyrir Fljótsdalsvirkjun en hvort hún verði að veruleika. Þess vegna get ég ekki tekið undir þau orð ráðherra að það sé að haga sér illa að bera á borð hér að Fljótsdalsvirkjun verði frestað eða Eyjabakkarnir verði í öllu falli verndaðir ef fara á út í slíka virkjun. Ég kalla það miklu frekar að haga sér illa ef menn ætla sér ekki að gera neitt í málinu. Ef það er einlægur ásetningur hæstv. ráðherra að koma þessum áformum fram hljóta einhverjir aðrir þingmenn að þurfa að koma fram með tillögur sem geta leiðrétt það sem áður hafði verið gert að mínu viti ranglega.