Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 17:59:36 (1130)

1998-11-16 17:59:36# 123. lþ. 24.32 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# frv., viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[17:59]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 60/1997, um stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. Frv. er á þskj. 256 og er 229. mál þingsins.

Með frumvarpi þessu er lagt til að Alþingi heimili iðnaðarráðherra og sjávarútvegsráðherra, sem saman fara með eignarhlut ríkissjóðs í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., að selja allt hlutafé ríkissjóðs í bankanum. Samkvæmt núgildandi 6. gr. laga nr. 60/1997, um stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., er heimilt að selja allt að 49% hlutafjár ríkissjóðs í bankanum.

[18:00]

Hinn 28. ágúst sl. samþykkti ríkisstjórn Íslands stefnumótun um sölu hlutafjár í Landsbanka Íslands, Búnaðarbanka Íslands og Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Stefnumótunin byggist á tillögum ráðherranefndar um einkavæðingu sem í eru forsætisráðherra, utanríkisráðherra, viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra. Stefnumótunin um sölu á hlutafé í Fjárfestingarbankanum byggir á eftirfarandi meginatriðum:

Hafin verði sala hlutafjár ríkissjóðs í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. á þessu ári.

Lagt verði til við Alþingi á yfirstandandi löggjafarþingi að heimiluð verði sala á öllu hlutafé ríkissjóðs í Fjárfestingarbankanum.

Hluti af fyrsta áfanga fyrrgreindrar sölu verði nýttur til að bjóða starfsmönnum Fjárfestingarbankans og þeim starfsmönnum hinna gömlu fjárfestingarlánasjóða sem tóku starfi í Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, eða höfnuðu starfi, áskrift að hlutabréfum að tiltekinni upphæð á kjörum sem jafna megi til þeirra kjara sem bjóðast starfsmönnum Landsbanka og Búnaðarbanka.

Hlutabréf bankans verði skráð á Verðbréfaþingi Íslands á grundvelli fyrrgreindrar sölu í því skyni að markaðurinn myndi verð á honum.

Við sölu Fjárfestingarbankans verði stuðlað að sjálfstæði hans sem samkeppnisaðila á íslenskum samkeppnismarkaði.

Það var jafnframt mat ríkisstjórnarinnar að mikilvægt væri að hraða sölu hlutafjár í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins og að stefna beri að því að selja allt hlutafé ríkissjóðs í bankanum á fyrri hluta ársins 1999 ef aðstæður leyfa. Ástæðan er einkum sú að engin rök hníga lengur til þess að ríkið sé stór eigandi hlutafjár í bankanum. Það er sameiginleg afstaða stjórnvalda og stjórnenda bankans að staða bankans á samkeppnismarkaði verði betur tryggð með því að ríkið selji allan hlut sinn og að engin ástæða sé til lengri aðlögunartíma. Þá er sala hlutafjár í bankanum liður í aðgerðum til að sporna við þenslu, auk þess sem ríkissjóður fær góðar tekjur af sölunni.

Nú þegar hefur stefnu ríkisstjórnarinnar verið framfylgt að nokkru. Þannig lauk á fimmtudaginn stærstu einkavæðingu sem fram hefur farið á Íslandi, sölu ríkissjóðs á 49% hlut í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Þá höfðu 10.734 skráð sig fyrir hlut í bankanum og óskuðu þeir samtals eftir kaupum á 13,5 milljörðum kr. að nafnvirði á genginu 1,4 eða 18,9 milljörðum kr. á söluverði. Ríkissjóður bauð til sölu 4 milljarða 665 millj. kr. að söluverði og er umframeftirspurn því um 14,2 milljarðar kr. Þar sem um umframáskrift er að ræða skerðist hámarksnafnverð sem hverjum áskrifanda er heimilt að kaupa fyrir. Skerðingin er ekki hlutfallsleg. Þannig verður hámarkshlutur 360 þús. að nafnvirði eða 504 þús. kr. að söluverði. Lægri hlutir skerðast ekki.

Gert er ráð fyrir að sala hlutafjár fari fram í tveimur áföngum. Dreifðri sölu til almennings á föstu gengi og tilboðssölu ef allir hlutirnir seldust ekki í almennu sölunni. Allur hlutinn hefur nú selst og kemur því ekki til tilboðssölu. Þessi niðurstaða sýnir mikinn áhuga almennings á fjárfestingu í hlutabréfum og endurspeglar þá þörf sem hefur verið fyrir aukna fjölbreytni öflugra hlutafélaga á íslenskum hlutabréfamarkaði.

Auk þess má nefna að tæplega 3.000 áskrifendur sættu ekki skerðingu í sölunni, þ.e. skrifuðu sig fyrir lægri fjárhæð en 360 þús. kr. að nafnverði. Þetta sýnir að áhugi almennings á sölunni var mikill. Þá er einnig athyglisvert að hafa í huga að þeir sem skráðu sig fyrir hámarksáskrift fengu aðeins um 12% af því sem þeir báðu um. Þessi sala kemur í kjölfar sölu á hlutafé í Landsbanka Íslands hf. þar sem liðlega 12.200 aðilar skráðu sig fyrir hlutabréfum. Bankinn varð með því næstfjölmennasta hlutafélag landsins á eftir Eimskipafélagi Íslands og verður skráður á Verðbréfaþingi Íslands.

Einnig hefur verið heimiluð hækkun hlutafjár í Búnaðarbanka Íslands hf. um allt að 600 millj. kr.

Óhætt er að segja að stefnumótun ríkisstjórnarinnar hafi hlotið góðar viðtökur ef marka má hinn gífurlega áhuga almennings. Þetta hefur gerst þrátt fyrir hrakspár fjölmargra þingmanna sem töluðu úr þessum ræðustóli þegar ég mælti fyrir frv. um stofnun bankans fyrir rétt rúmu einu og hálfu ári og sumir þeirra eru enn í salnum í dag.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvernig staðið verði að sölu hlutafjár í Fjárfestingarbankanum í síðari áfanga, þ.e. hvernig heimildir Alþingis til frekari sölu samkvæmt þessu frv. verða nýttar. Munu stjórnvöld draga lærdóm af nýafstaðinni sölu við þá stefnumótun. Þá er vilji ríkisstjórnarinnar að selja allan hlut ríkisins fyrir mitt næsta ár ef aðstæður leyfa.

Jafnframt hefur því verið lýst yfir að við þá sölu verði áfram stefnt að dreifðri eignaraðild og sjálfstæði Fjárfestingarbankans sem samkeppnisaðila á íslenskum samkeppnismarkaði. Í því efni er miðað við að hlutdeild hvers aðila í frumsölu verði ekki hærri en sem nemur 5--10% hlutafjár í bankanum. Jafnframt verði hugað að skráningu félagsins á hlutabréfamarkaði erlendis til viðbótar við skráningu á Verðbréfaþingi Íslands. Nánari útfærsla sölunnar mun eins og áður sagði ráðast af þeim lærdómi sem menn draga af nýafstaðinni sölu og mati á aðstæðum á sölutímabilinu.

Herra forseti. Að lokinni umræðunni óska ég þess að frv. verði vísað til efh.- og viðskn. og það verði afgreitt á þessu þingi.