Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 19:09:45 (1145)

1998-11-16 19:09:45# 123. lþ. 24.32 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[19:09]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst þetta ekki vera óskynsamleg aðferð sem hæstv. ráðherra reifar hér, þ.e. að binda kaup við eignaraðild í tiltekinn tíma. Mér t.d. hugnast hún talsvert betur en sú að setja í lög að eignaraðild megi ekki vera umfram einhverja tiltekna stærðargráðu. (Gripið fram í: Ekki hægt.) Hæstv. forsrh. er þeirrar skoðunar að það sé hægt og hann hefur vísað til erlendra fordæma.

Ég hins vegar lít á þetta svona: Þessi banki, Fjárfestingarbankinn, er eign íslensku þjóðarinnar. Það á að selja hann og þær tekjur sem við fáum af sölunni eiga að koma íslensku þjóðinni til góða. Þær geta gert það með tvennum hætti. Annars vegar með því að renna í ríkissjóð og notast til hluta sem horfa til heilla fyrir þjóðina. Hins vegar er líka hægt að selja hann, eins og bankarnir hafa verið seldir að undanförnu, með verðlagningu sem örvar menn til að kaupa og sem gerir það að verkum að mjög margir, á annan tug þúsunda, taka þátt í kaupunum og vegna þess að ákveðnar aðstæður skapast síðan á eftirmarkaði, selja það til stærri eigenda og hagnast á því. Sá hagnaður er líka með vissum hætti flutningur á fjármagni úr þessari eign ríkisins til þeirra.

Það sem skiptir máli þar, herra forseti, er að allir eiga kost á því að bjóða í ákveðinn hlut. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að menn hafa auðvitað misjöfn fjárráð. En eins og bankarnir stóðu að sölu Landsbankans þá má eiginlega heita að möguleikinn til þess að festa kaup og hagnast á því hafi verið án tillits til fjárráða manna. Mér finnst það gott. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að það eigi að bjóða smáa hluti, það eigi að auðvelda mönnum að kaupa þá og það eigi sem sagt að leyfa þeim að hagnast á eftirmarkaði.

Ég held að þegar hæstv. ríkisstjórn fer að selja önnur fyrirtæki, og þar hefur t.d. Landssíminn verið ræddur, að þá sé þetta aðferðin til þess að gera það. Mér er alveg ljóst, herra forseti, að við fáum ekki ráðið við markaðinn sem tekur við af frumsölunni og að þá kunna stórir aðilar að vilja seilast til valda. Það kemur ekkert í veg fyrir að þeir geti það. En þeir verða þá að gera það þannig að þeir bjóði nægilega vel í og á móti öðrum samkeppnisfyrirtækjum til þess að fá þessa smáu hluti, til þess að verða stórir, og þá hagnast litli maðurinn sem tekur þátt í þessum kaupum. Og þá er loksins komin í framkvæmd draumsýn eins manns sem löngum var á meðal okkar, Eyjólfs Konráðs Jónssonar, sem var nákvæmlega þessi.