Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 19:16:59 (1147)

1998-11-16 19:16:59# 123. lþ. 24.32 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[19:16]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég óska hæstv. ráðherra til hamingju með að honum tókst bærilega að halda sig við málefnið.

Herra forseti. Ég hef komið inn í þessa umræðu til þess að eiga málefnalegan orðastað við hæstv. ráðherra. Ég er ekki í einhverjum pólitískum burtreiðum um þessa banka. Ég er að mörgu leyti ósammála ýmsu sem hæstv. ráðherra hefur gert í bankamálunum en sumu er ég sammála. Ég er t.d. þeirrar skoðunar, eins og hefur margsinnis komið fram í þeim ritstjórnargreinum sem hæstv. ráðherra hefur vísað til og hefði betur lesið örlítið oftar og dýpra, að sú aðferð sem menn duttu niður á við söluna á bréfum í Landsbankanum sé afskaplega farsæl. Ég hef sagt það áður og segi enn að þeir eiga að nota það sem fordæmi þegar þeir eru að selja eigur ríkisins sem þeir telja að ekki sé rétt að ríkið starfræki lengur.

Ég hefði þess vegna verið þeirrar skoðunar að sömu aðferð hefði átt að beita við Fjárfestingarbankann en ég tek gild þau rök sem hæstv. ráðherra beitir þegar hann segir: ,,Ríkisstjórninni var ekki ljóst fyrir fram hversu mikil eftirspurn yrði eftir hlutum í Fjárfestingarbankanum.`` Ég sjálfur eins og ég greindi ærlega frá var þeirrar skoðunar í upphafi þegar það útboð fór fram að að öllum líkindum yrði þátttakan miklu minni en raunin varð. Hins vegar er mikilvægt í þessari umræðu að hæstv. ráðherra hefur sagt að nú blasi við ákveðið landslag, nú sé komin ákveðin reynsla á þá sölu sem fór fram á hlutum úr Fjárfestingarbankanum og þá sé rétt að meta málið upp á nýtt. Það finnst mér náttúrlega dálítið mikilvæg yfirlýsing hjá hæstv. ráðherra vegna þess að hún felur í sér að hann er ekki geirnegldur á þá aðferð að selja til að mynda 5--10% úr því 51% sem eftir er. Það mundi náttúrlega þýða að eigendurnir yrðu 5--10. Ég er þeirrar skoðunar að honum beri eiginlega mórölsk skylda, í ljósi þeirrar miklu eftirspurnar sem varð hjá íslenskum almenningi eftir bréfum frá Fjárfestingarbankanum, að svara með því að bjóða aftur litla hluti.

Ég er að vísu engin sérstök vitsmunabrekka á sviði bankamála en ég sé fyrir mér að ef hæstv. ráðherra tækist ekki að koma öllum hlutum út með þeim hætti, þá gæti hann farið svipaða leið og menn eru að mér sýnist að fara með sölu Búnaðarbankans, þ.e. að þeir hlutir sem seljist ekki með þeim hætti til einstaklinga, fari yfir í sérstakan útboðsflokk sem verði þá boðinn stærri fjárfestum til sölu. En mér finnst að hann skuldi íslenskum almenningi möguleikann á því að kaupa sér litla hluti og hagnast á þeim og ég geri alls engar athugasemdir við að menn geri það. Hæstv. ráðherra á auðvitað að gera sér grein fyrir því að markaðurinn fer alltaf eins langt og honum leyfist innan lagarammans og hvað sem gerst hefur núna í þessu útboði með Fjárfestingarbankann, sem menn eru ekki allir sammála um, ég þekki það ekki til hlítar en ég ímynda mér að þar hafi það eitt gerst að menn hafi farið eins langt og lagaramminn leyfir og menn hafi ekki brotið lög. Það er munur á því að gera eitthvað sem er siðlaust og það sem er löglaust og ég dreg í efa að þarna hafi eitthvað löglaust átt sér stað.

Eitt að lokum, herra forseti. Hæstv. ráðherra bar á móti því að ætlunin hefði verið að selja ráðandi hlut til SE-bankans í Svíþjóð. Ég verð nú að hressa upp á veikburða minni hæstv. ráðherra sem er alls ekki tekinn að reskjast og hefur ekki sýnt það áður að honum sé farið að förlast minni en ég veit ekki betur en að í Morgunblaðinu hafi hæstv. utanrrh. talað um að selja ráðandi hlut og hvað er, herra forseti, ráðandi hlutur þegar Wallenbergarnir eiga í hlut?

Þeir eru þekktir fyrir það að þeir stýra og hafa ofurtök á fjölda fyrirtækja. Með hverju? Með því að eiga 15--19% hlut vegna þess að eignaraðildin er svo dreifð. Ef sú leið hefði verið farin að selja þeim t.d. 15--20% hlut og setja síðan allan Landsbankann á markað með mjög smáum hlut er líklegt að þeir hefðu náð ráðandi tökum og það er auðvitað það sem var lagt upp með af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ég ætla ekki að deila við hæstv. ráðherra um það en það varð ekki för til fjár. Því var bjargað af hæstv. forsrh. sem hafði vit fyrir hæstv. ráðherrum Framsfl. En ég ítreka, herra forseti, að núna er ákveðin reynsla komin á sölur hluta á þessum bönkum og mér finnst mikilvægt að hæstv. ráðherra hefur sagt það hérna skýrt og skorinort að hann sé ekki fastur í einhverju tilteknu atriði, einhverri tiltekinni leið. Hann vill meta reynsluna og haga sér í framhaldi af því og ég tek það svo, herra forseti, að það þýði að það sem kemur fram í greinargerðinni sé honum ekki endilega fast í hendi. Það verði ekki nauðsynlega farin sú leið að selja einungis 5--10% hluti heldur freisti menn þess fyrst að leita miklu dreifðari eignaraðildar og það finnst mér alltént gott.