Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 19:27:13 (1150)

1998-11-16 19:27:13# 123. lþ. 24.32 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[19:27]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ef við erum sammála um að það skipti kannski ekki höfuðmáli hverjir munu eignast, þ.e. það muni gerast í framtíðinni að einhverjar fjármálastofnanir munu eignast ráðandi hlut í bankanum. Hann gæti jafnt eftir sem áður verið sjálfstæður en menn gætu nýtt sér hagræðið af samstarfinu.

Þá getur maður líka spurt af hverju við stigum ekki það skref að selja bankann í einu lagi til hæstbjóðanda og afla þannig verulegra tekna. Ég tek undir það, ég ætla ekki að nefna neinar prósentur í þeim efnum, en við hefðum getað fengið mun hærra verð fyrir bankann ef það hefði verið bein samkeppni um að ná honum yfir og ná völdum og áhrifum um leið, þá hefðum við fengið meiri peninga inn í ríkissjóð, nýtt þá fjármuni til góðra verka eins og þessi ríkisstjórn hefur verið að gera á sviði menntamála, félagsmála, heilbrigðismála og fram eftir götunum. Þetta hefði verið ein leið.

Hin leiðin sem menn velja kannski að einhverju leyti núna er að bjóða út á tilteknu fyrir fram ákveðnu gengi miðað við mat á bankanum, sem er milliverð sem menn fóru miðað við áætlað mat, síðan verður keppni hjá þeim sem á markaðnum eru um það á hvaða verði þeir gætu hugsanlega keypt bankann. Hverjir græða á því? Þeir sem keyptu bréfin upphaflega og að því leyti til er þessi niðurstaða, og það er sú leið sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson vill fara, en hún er ekki í anda jafnaðarmanna vegna þess að það eru þá þeir sem eiga peningana sem eignuðust bréfin í fyrstu umferð og munu græða á þeim. Þessar tvær leiðir sem þarna eru farnar eru jafngildar. Þær skila því sama þegar upp er staðið, hugsanlega til fólksins sem á, en í seinni leiðinni sem hv. þm. vill fara njóta þeir frekar sem fjármunina eiga.