Útsendingarstyrkur ljósvakamiðla á Suðurnesjum

Miðvikudaginn 18. nóvember 1998, kl. 14:06:04 (1246)

1998-11-18 14:06:04# 123. lþ. 26.2 fundur 34. mál: #A útsendingarstyrkur ljósvakamiðla á Suðurnesjum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi ÁE
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 123. lþ.

[14:06]

Fyrirspyrjandi (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Á þskj. 34 hef ég leyft mér að bera fram fyrirspurn í fjórum liðum til hæstv. menntmrh. um lélegan útsendingarstyrk ljósvakamiðla á Suðurnesjum. Mikil óánægja hefur verið með útsendingar ljósvakamiðla á Suðurnesjum. Þess má geta að aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum ályktaði 11.--12. sept. sl. um þetta mál. Þar var lýst yfir undrun á seinagangi við að koma gæðum útsendinga í lag.

Þetta mál hefur verið með miklum eindæmum, þetta er ófremdarástand og mjög slæmt víða á Suðurnesjum, sérstaklega í Vogum og Grindavík. Víða í Reykjanesbæ eru dauðir blettir í útsendingu og Suðurnesjamenn þekkja að oft ,,snjóar`` á sjónvarpsskjám. Það heyrist illa í útvarpi. Þetta á hins vegar bæði við Ríkisútvarpið, hljóðvarp og sjónvarp og einnig við útsendingar Íslenska útvarpsfélagsins, þ.e. Bylgjunnar og Stöðvar 2.

Sveitarfélögin á Suðurnesjum hafa tekið frumkvæðið í þessum efnum og átt viðræður við þessa aðila en það hefur ekki borið neinn árangur þrátt fyrir yfirlýsingar í aðra átt.

Þarna búa vitaskuld mjög margir, 15 þúsund manns, og fyrirspurn mín til hæstv. ráðherra er svohljóðandi:

,,1. Hverjar eru ástæður þess að útsendingarstyrkur Ríkisútvarpsins, hljóðvarps og sjónvarps, er mjög lélegur víða á Suðurnesjum?

2. Hvers vegna hefur ekki verið gripið til aðgerða til að bæta úr þessu?

3. Finnst ráðherra eðlilegt að íbúar Suðurnesja greiði fullt afnotagjald fyrir þjónustu sem er í reynd ekki innt af hendi á fullnægjandi hátt?

4. Er ráðherra reiðubúinn að stuðla að samvinnu Ríkisútvarpsins og Íslenska útvarpsfélagsins til að ráða bót á þessu vandamáli?``

Ég vil geta þess að um leið og ég lagði fyrirspurnina fram til hæstv. menntmrh. þá ritaði ég Íslenska útvarpsfélaginu bréf og bar fram sambærilegar spurningar til þeirra. Ég hef fengið bréflegt svar frá þeim þar sem þeir lýsa því sem þeir hafa gert til úrbóta í þessum málum. Þeir geta þess t.d. að vandkvæðin við að dreifa örbylgjumerkjum hafi verið erfið vegna endurkasts frá sjó. Þeir segja svo ég vitni orðrétt í bréf þeirra, með leyfi forseta:

,,Ef allt gengur samkvæmt áætlun ætti að vera komin varanleg lausn fyrir örbylgjusendingar til íbúa Reykjanesbæjar og Voga fyrir næstkomandi mánaðamót.``

Þannig er ljóst að verið er að vinna að þessum málum. Ég vænti þess að í svörum hæstv. ráðherra komi fram að hið sama megi segja um RÚV, en ljóst er að ekki verður lengur búið við þetta ástand.