Lánasjóður íslenskra námsmanna

Miðvikudaginn 18. nóvember 1998, kl. 14:31:58 (1258)

1998-11-18 14:31:58# 123. lþ. 26.3 fundur 192. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 123. lþ.

[14:31]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég hélt satt að segja að það væri mjög einfalt svar við þeirri spurningu sem ég lagði fyrir hæstv. menntmrh., að svarið væri já við því að ríkja ætti jafnræði varðandi vaxtabætur og húsaleigubætur við útreikning námslána. Ég verð að segja að mér finnst það mjög sérstakt að alþingismenn skuli hafa afsalað sér því valdi til stjórnar sjóðsins að ákveða hvort húsaleigubætur séu inni eða úti að því er varðar útreikning á námslánum sem hefur verið ákveðið 1994 að húsaleigubætur mundu þá skerða námslánin.

Út af fyrir sig má segja að það sem fram kom hjá ráðherranum hæstv. sé jákvætt. Það sem fram kom hjá ráðherranum er raunverulega viðurkenning á því að óréttlæti sé í því fólgið að námslán geti skerst um 70--80 þús. kr. vegna húsaleigubóta meðan vaxtabætur skerða ekki námslánin. Hæstv. ráðherra nefndi að það yrði skoðað að veita viðbótarlán vegna mikils húsnæðiskostnaðar. Ráðherrann á þá væntanlega líka við þá sem eru í eigin húsnæði. Ég vil fá það nánar skýrt frá ráðherranum hvort hann er bara að tala um þá sem eru í leiguhúsnæði eða líka þá sem eru í eigin húsnæði.

Ég vil fagna því einnig að frítekjumarkið verði skoðað þannig að það verði þá rýmra. En ég vil spyrja hæstv. ráðherra því að hann nefndi að þetta yrði gert við næstu endurskoðun: Af hverju að bíða eftir því? Er ráðherrann ekki sjálfur tilbúinn til þess að beita sér fyrir því og beina þeim tilmælum til sjóðsins að þessar reglur verði endurskoðaðar án tafar?