Móttökuskilyrði ríkisútvarps og ríkissjónvarps

Miðvikudaginn 18. nóvember 1998, kl. 14:57:56 (1271)

1998-11-18 14:57:56# 123. lþ. 26.5 fundur 238. mál: #A móttökuskilyrði ríkisútvarps og ríkissjónvarps# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 123. lþ.

[14:57]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Þessari fyrirspurn er svarað að fengnum upplýsingum frá Ríkisútvarpinu. Ég ætla að endurtaka það sem ég sagði áður um dreifikerfismál Ríkisútvarpsins almennt, að ákvarðanir um framkvæmd, endurnýjun og viðhaldi í dreifikerfinu hafa dregist á þessu ári vegna samningaviðræðna við Landssíma Íslands um rekstur dreifikerfis Ríkisútvarpsins. Þessum viðræðum er nú að ljúka og ljóst að sú meginbreyting verður að verulegur hluti stofndreifingar verður héðan í frá um ljósleiðara Landssímans. Þessi breyting eykur öryggi og gæði í stofndreifingu Ríkisútvarpsins og þýðir að móttökuskilyrði munu þegar batna víða.

Í framhaldi af þessari breytingu er gert ráð fyrir stóraukinni fjárfestingu í sendum og endurvörpum Ríkisútvarpsins víða um land sem enn mun bæta móttökuskilyrðin. 55 millj. kr. eru áætlaðar til þessa verkefnis á næsta ári. Alls er áætlað að verja 175 millj. kr. á næstu fimm árum til endurnýjunar senda og endurvarpa í dreifikerfi Ríkisútvarpsins. Um 80% þeirrar fjárhæðar eru vegna senda og endurvarpa í dreifbýli.

Minna má á að á síðustu missirum hefur Ríkisútvarpið beint kröftum sínum að uppbyggingu langbylgjustöðva á Gufuskálum og Eiðum. Stöðin á Gufuskálum var formlega opnuð fyrir rúmu ári. Nú standa yfir lokaprófanir á stöðinni á Eiðum og vonast er til að hún verði formlega tekin í notkun fyrir árslok.

Síðan er spurt: ,,Hvað hefur Ríkisútvarpið gert á síðustu árum til þess að bæta móttökuskilyrði útvarps og sjónvarps á Vesturlandi?``

Eins og áður sagði var öflug langbylgjustöð opnuð á Gufuskálum fyrir rúmu ári og gefur hún samfellda móttöku útvarpsins um allt vestanvert landið og víðar. Loftnetum FM-senda við Ólafsvík og Þjóðólfsholt hefur verið breytt yfir í hringpólaða útsendingu sem gefur bætta viðtöku í bifreiðum. Fyrir um tveimur árum var settur upp nýr sjónvarpsendurvarpi við Hellissand.

Þá er spurt: ,,Hefur Ríkisútvarpið áform um aðgerðir til að bæta móttökuskilyrðin á Vesturlandi þannig að allir Vestlendingar geti notið þjónustu Ríkisútvarpsins á fullnægjandi hátt?``

Svarið er: Ríkisútvarpið hefur áætlað kostnað við kosti til úrbóta á móttökuskilyrðum fyrir sjónvarp og útvarp um norðanvert Snæfellsnes sem nemur um 30 millj. kr. Ríkisútvarpið lítur á þessar úrbætur sem forgangsverkefni.

Þá er spurt: ,,Finnst ráðherra eðlilegt að þeir íbúar Vesturlands sem ekki geta notið þjónustu Ríkisútvarpsins á fullnægjandi hátt vegna lélegra móttökuskilyrða greiði fullt afnotagjald til Ríkisútvarpsins?``

Í þessu efni er svar mitt hið sama og áður. Ég tel að að sjálfsögðu eigi menn að borga fyrir þá þjónustu sem þeir fá og að í þessu tilviki sé oft erfitt að sannreyna hvar vandinn liggur. Miðað við meginstefnuna ættu menn ekki að borga fyrir aðra þjónustu en þeir fá. Ríkisútvarpið hefur framfylgt stefnu í þessu efni sem hlýtur að heyra undir það að í hverju einstöku tilviki þarf að taka tillit til aðstæðna og meta hvað veldur vandræðunum.