Móttökuskilyrði ríkisútvarps og ríkissjónvarps

Miðvikudaginn 18. nóvember 1998, kl. 15:01:03 (1272)

1998-11-18 15:01:03# 123. lþ. 26.5 fundur 238. mál: #A móttökuskilyrði ríkisútvarps og ríkissjónvarps# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., BH
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 123. lþ.

[15:01]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Magnúsi Stefánssyni í þessu máli og þakka honum fyrir að hreyfa því hér.

Það vill svo til að ég dvel nokkuð mikið í frístundum á einu þessara svæða sem er sérstaklega til nefnt, það er efst í Kolbeinsstaðahreppi í Hnappadalnum og mér finnst hreint með ólíkindum að núna rétt fyrir lok 20. aldarinnar skuli vera svæði til á landinu þar sem íbúar búa við mjög slæleg skilyrði hvað útvarp varðar en þurfa samt að greiða fullt afnotagjald. Ég vek athygli á því í leiðinni að það er ekki bara nóg með það að þetta einstaklega fallega og gjöfula svæði sem Hnappadalurinn er búi við afleitt útvarpssamband heldur er símasamband á svæðinu algerlega óviðunandi líka. Ég vil því taka undir með hv. þm. þeirra Vestlendinga, Magnúsi Stefánssyni og hvetja til að úr þessu verði bætt hið allra fyrsta.