Móttökuskilyrði ríkisútvarps og ríkissjónvarps

Miðvikudaginn 18. nóvember 1998, kl. 15:02:06 (1273)

1998-11-18 15:02:06# 123. lþ. 26.5 fundur 238. mál: #A móttökuskilyrði ríkisútvarps og ríkissjónvarps# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., GE
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 123. lþ.

[15:02]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég tek undir með síðasta ræðumanni og þakka hv. þm. Magnúsi Stefánssyni fyrir að hreyfa þessu máli. Margoft hefur verið kvartað á undanförnum árum beint til Ríkisútvarpsins. Þetta mál hefur einnig verið rætt á Alþingi hvað eftir annað og enn þá er það svo að í Kolbeinsstaðahreppnum er mjög slæmt samband bæði með síma og útvarp. Á Bröttubrekku dettur út útvarp og sími á þeirri leið yfir á Heydal og það er margsannað að margir svokallaðir svartir blettir eru enn þá á Vesturlandi þrátt fyrir að ástandið hafi batnað eftir að settur var magnari á Gufuskálum eða endurvarp á Gufuskálum en ég tek undir að ástæða er til þess að skoða þetta mál miklu betur og setja í þetta fjármagn. Það hefur alltaf verið kvartað undan því að það væri svo vont að ná í rafmagn. Við eigum núna möguleika að setja jafnvel upp vindmyllur til að framleiða rafmagn á þeim stöðum þar sem þyrfti að koma fyrir endurvarpa.