Aðgerðir vegna tekjumissis grásleppusjómanna

Miðvikudaginn 18. nóvember 1998, kl. 15:35:03 (1291)

1998-11-18 15:35:03# 123. lþ. 26.8 fundur 168. mál: #A aðgerðir vegna tekjumissis grásleppusjómanna# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 123. lþ.

[15:35]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það er rétt að oft eru verulegar sveiflur í grásleppuveiðiskap, bæði hvað varðar magn og verð. Veiðin hefur verið um 10 þús. tunnur að meðaltali síðustu tíu árin. Aflinn hefur þó farið tvisvar á þessu tímabili í 13.500 tunnur, m.a. vertíðina 1997. Síðasta vertíð var hins vegar afar slök og var aflinn einungis 6.500 tunnur en árið 1990 varð aflinn svipaður. Auk þess sem aflinn dróst verulega saman lækkaði verð á hverja tunnu úr 65 þús. krónum árið 1997 í 41 þús. kr. Heildarverðmæti grásleppuaflans varð u.þ.b. 265 millj. eða tæpur þriðjungur af verðmæti vertíðarinnar 1997. Verðfallið má rekja til mikillar veiði í heiminum árið 1997 en þá veiddust tæplega 50 þús. tunnur. Talið er að hæfilegt magn sé um 33 þús. tunnur á ári og ef litið er til þess að í ár veiddust alls um 17 þús. tunnur virðist meðalveiðin árið 1997 og 1998 vera nálægt settu viðmiðunarmarki. Því olli það nokkrum vonbrigðum að verðið skyldi lækka eins mikið og raun varð á.

Um 525 bátar hafa haft grásleppuleyfi og þar af hafa 40 bátar einvörðungu grásleppuleyfi. Aðrir bátar voru með önnur leyfi einnig. Botnfiskafli þessara báta varð um 21 þús. lestir sem gæti verið um 1,5 milljarðar kr. í aflaverðmæti. Samdráttur í aflaverðmæti vegna slakrar grásleppuvertíðar, sem nemur um 640 millj. milli ára, þýðir því að heildarverðmæti þessara báta er gróflega reiknað u.þ.b. 25% minna en ef grásleppuvertíðin hefði verið eðlileg. Þessum samdrætti er eðlilega misskipt og t.d. eðlilegt að álykta að hann komi verst niður á þeim sem hafa eingöngu leyfi til grásleppuveiða. Þótt engu sé hægt að slá föstu um það hve mikinn hluta tekna sinna grásleppukarlar hafa af þessum veiðum verður að telja líklegt að þeir sem eingöngu hafa leyfi til grásleppuveiða hafi tekjur af öðrum toga en grásleppuveiðum. Jafnframt er líklegt að aðstaðan sé mjög mismunandi á milli þeirra innbyrðis. En það er ljóst að sveiflur af þessu tagi geta átt sér stað og því miður hafa menn horft framan í verulega niðursveiflu bæði að því er varðar veiði og aflabrögð en ekki hafa verið á prjónunum neinar sérstakar ráðstafanir til að draga úr þessum sveiflum. Þetta er þáttur í starfsumhverfi sjávarútvegsins að sveiflur verða frá einu ári til annars sem útvegurinn verður að mestu leyti að standa undir og geta tekist á við en ýmislegt bendir þó til þess með hliðsjón af því hvað veiðin hefur færst niður að markaðsverð eigi að geta náð jafnvægi aftur á nýjan leik.