Greiðslur til starfsmanna í B-hluta stofnunum ríkisins

Miðvikudaginn 18. nóvember 1998, kl. 16:01:38 (1300)

1998-11-18 16:01:38# 123. lþ. 26.10 fundur 190. mál: #A greiðslur til starfsmanna í B-hluta stofnunum ríkisins# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., BH
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 123. lþ.

[16:01]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að taka þetta mál upp. Þær tölur sem hún hefur vakið athygli á eru ekki síst athyglisverðar í ljósi þess að hæstv. ríkisstjórn hefur sett fram háleit markmið í jafnréttismálum og m.a. var gefið út rit um þau mál af hálfu fjmrn. Þar eru stofnanir á vegum ríkisins m.a. hvattar til að stuðla að jöfnum rétti kvenna og karla til launa.

Hæstv. fjmrh. vill meira jafnrétti. Það er gott. En ég vil nota tækifærið og minna hann á að það er hann sem hefur valdið til að breyta þessu. Hæstv. fjmrh. telur eðlilegar skýringar vera á þessu, m.a. þær að forstöðumenn stofnana, sem oftast eru karlar, séu helst fengnir til að gegna störfum sem hafa í för með sér aukatekjur. Ég tel þessa skýringu vera nokkuð líklega til að skýra hluta þessa misréttis en þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Er ekki kominn tími til að fara að ráða líka konur í störf forstöðumanna stofnana og í æðstu stöður hjá stofnunum á vegum ríkisins og í ráðuneytunum eða er það eitthvert lögmál að í þeim stöðum séu fyrst og fremst karlar?