Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 19. nóvember 1998, kl. 11:45:55 (1330)

1998-11-19 11:45:55# 123. lþ. 27.2 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 123. lþ.

[11:45]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég tók fram var það stefna þeirra vinstri flokka sem voru til á fyrstu áratugum þessarar aldar að landið yrði allt eitt kjördæmi. Það var ekki bara stefna Alþfl. Það var líka stefna Sameiningarflokks alþýðu --- Sósíalistaflokksins sem ég veit að hv. þm. kannast við. Alþfl. hefur aldrei breytt þessari afstöðu sinni. Það hefur verið og er stefna Alþfl. að gera allt landið að einu kjördæmi.

Við höfum hins vegar fallist á málamiðlanir til þess að auka jafnrétti milli kjósenda og tryggja jafnræði milli flokka á undanförnum áratugum þó svo að við fengjum ekki þessari skoðun okkar framgengt á Alþingi. Það er nákvæmlega sama núna. Við stöndum að skynsamlegustu málamiðlum sem náðist. Við höfum ekki horfið frá stefnu okkar og munum ekki gera það. Ég lýsti því í ræðu minni áðan að ég teldi að það stóra skref sem verið er að stíga núna sé stórt skref í áttina til þess að gera landið allt að einu kjördæmi. Ég held að það verði stutt í það að slík breyting fylgi í kjölfar þessarar.