1998-11-30 15:13:49# 123. lþ. 29.91 fundur 122#B afgreiðsla heilbrigðis- og trygginganefndar á málum um gagnagrunn á heilbrigðissviði# (aths. um störf þingsins), SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 123. lþ.

[15:13]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Gagnagrunnsfrv. hefur fengið mjög vandaða meðferð í heilbr.- og trn. undir forustu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar og það á auðvitað ekki að koma neinum á óvart að stjórnarmeirihlutinn áformi að klára þetta mál fyrir jól. Það hefur alltaf legið fyrir. Það er vert að minnast þess að umfjöllun um þetta mál tók langan tíma í vor.

Það hefur verið fullyrt hér að það væri brotalöm í starfsháttum þingsins að hv. heilbr.- og trn. velji að vinna málið á þennan hátt, þ.e. að taka ekki til meðferðar önnur þingmál sem fjalla að vissu leyti um skylt málefni. En það eru bara allt önnur þingmál. Það hafa verið kölluð ólýðræðisleg vinnubrögð. Ég vil mótmæla því. Það eru fullkomlega lýðræðisleg vinnubrögð eins og hefur verið staðið að málum í heilbr.- og trn. Það er ekkert óeðlilegt við það að því sé hafnað að fjalla um mál frá stjórnarandstöðu meðan verið er að klára þetta stóra mál sem allir vita að við ætlum okkur að klára fyrir áramót því að ef við hefðum farið að taka hin málin samhliða fyrir þá er alveg ljóst að sú vinna hefði dregist langt fram eftir vetri. Ég ítreka að hér er um fullkomlega lýðræðisleg vinnubrögð að ræða og ekkert annað.