Áfengisauglýsingar

Miðvikudaginn 02. desember 1998, kl. 13:47:21 (1481)

1998-12-02 13:47:21# 123. lþ. 30.3 fundur 119. mál: #A áfengisauglýsingar# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 123. lþ.

[13:47]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Í fsp. hv. þm. var leitað eftir svörum við því hver væru viðbrögð vegna héraðsdómsins. Hans vegna er ekki tilefni til sérstakra viðbragða annarra en þeirra sem ég hef hér lýst. Síðan verða menn að meta málið þegar hæstaréttarniðurstaðan liggur fyrir. Fari svo að Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms eru þessi lög og lagaákvæði fallin úr gildi og ekki önnur ráð uppi, ef menn vilja takmarka eða banna alfarið áfengisauglýsingar, en að kveða skýrt á um það í stjórnarskrá. Ég minni á það álit flestra stjórnlagafræðinga að þróunin í þessum efnum í Evrópu og víðar hafi verið í þá veru að menn hafi viðurkennt að takmarkanir sem lúta að hreinum heilsuvörnum ættu rétt á sér og gætu staðist almenn mannréttindaákvæði um tjáningarfrelsi. Við höfum sett slík ákvæði í okkar stjórnarskrá þar sem heimilt er að setja lög sem geta takmarkað tjáningarfrelsið sé það til að verja heilsu manna. Mitt mat hefur verið að það ákvæði stjórnarskrárinnar heimilaði þá löggjöf sem við höfum sett. Héraðsdómur komst að annarri niðurstöðu og hér verður því að bíða úrslita í Hæstarétti.