Áætlanir í raforkumálum

Miðvikudaginn 02. desember 1998, kl. 15:08:44 (1510)

1998-12-02 15:08:44# 123. lþ. 30.13 fundur 200. mál: #A áætlanir í raforkumálum# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 123. lþ.

[15:08]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Varðandi Framleiðni- og orkusjóð er það rétt sem hv. þm. sagði, að áætlaðir eru viðbótarfjármunir 50 millj. kr. á næsta ári og síðan 50 millj. kr. á ári næstu fimm árin. Þeir fjármunir eru tryggðir m.a. með því að Landsvirkjun greiðir fyrir þann kostnað sem ríkið hefur orðið fyrir vegna Fljótsdalsvirkjunar á næstu fimm árum með endurgreiðslu í Orkusjóð. Þeir fjármunir eru hins vegar ekki ætlaðir til að standa undir kostnaði við þetta. Þar eru aðrir fjármunir til ráðstöfunar. Þeir fjármunir eru ætlaðir til að viðhalda stöðugleika og árlegu framlagi til rannsókna á virkjunarkostum víða um land. Hugsunin sem þar liggur að baki er örlítið öðruvísi.

Til arðgreiðslna frá Rafmagnsveitum ríkisins hefur enn ekki komið í ríkissjóð. Þeir fjármunir hafa fyrst og fremst verið notaðir til nýsköpunar í atvinnulífinu og til að fjármagna lagningu nýrra strengja til að styrkja m.a. þrífösunina í landinu. Það sem eftir stendur, eða eins og hv. þm. orðaði það í upphafi seinni ræðu sinnar, það sem upp úr stendur er: Á sama tíma og ríkisstjórnin hvetur til nýsköpunar í atvinnulífinu er hún jafnframt að framkvæma verkefni sem aldrei hefur verið meira lagt í en í tíð þessarar ríkisstjórnar, þ.e. að greiða fyrir þeim möguleikum að menn geti haft aðgang að tryggu og nægu rafmagni til nýsköpunar í atvinnulífinu, m.a. með strenglagningunni og þrífösuninni.