Hafnaáætlun 1999-2002

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 14:07:37 (1575)

1998-12-03 14:07:37# 123. lþ. 32.6 fundur 291. mál: #A hafnaáætlun 1999-2002# þál., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[14:07]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var öllu hógværari tónninn í hv. þm. Kristjáni Pálssyni í þessari umræðu þegar kom að loforðum í Reykjaneskjördæmi en fyrir örfáum vikum þegar hann þandi sig á síðum dagblaðanna og var í sjónvarpsauglýsingum um allt sem hann ætlaði að gera á þessu kjörtímabili og hinu næsta fyrir kjósendur sína. Það var hógværari tónninn í þessum ræðustóli þegar kom að framkvæmdum.

Þarna mátti ekki skilja hann öðruvísi en svo að hann féllist ekki aðeins að fullu og öllu á það að ekki væru meiri peningar til fyrir sveitarfélög og hafnir í norðanverðu kjördæmi hans heldur bara engir peningar, það var nú bara þannig. Það er bara núll, engar styrkhæfar framkvæmdir á áætlunartímabilinu næstu fjögur árin. Það er bara verið að setja sveitarfélögin og hafnirnar út á guð og gaddinn. Þær geta bara séð um sig sjálfar. Ég vil spyrja hv. þm. lykilspurningar, virðulegi forseti. Er hann samþykkur þessari stefnumörkun? Sagði hann kjósendum þessara sveitarfélaga ósatt fyrir örfáum vikum þegar hann lofaði gulli og grænum skógum? Var það bara rétt á meðan prófkjörið stóð yfir?

Fróðlegt væri að vita það líka frá hv. formanni þingflokks sjálfstæðismanna af því að hún var að ganga í salinn, hvort hún sé líka sammála því að þrjú sveitarfélög í Reykjaneskjördæmi séu ekki styrkhæf þegar kemur að hafnarframkvæmdum. Er það stefna Sjálfstfl. í Reykjaneskjördæmi, er það stefna Sjálfstfl. í heild eins og fram hefur komið hjá hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni og síðast en ekki síst, hjá hæstv. ráðherra, að við berum þessa tillögu fram að svona skuli þetta vera? Ég árétta það, virðulegi forseti, til að það sé bara rétt og satt því að hv. þm. gerir það stundum þegar hann nefnir til sögunnar framkvæmdir. Framkvæmdir og ákvarðanir vegna Sandgerðishafnar voru teknar á síðasta kjörtímabili. Þá sat hv. þm. ekki á þingi. Þetta er svipað og með ljósastaurana á Reykjanesbrautinni. Það er rétt að hafa það alveg klárt við umræðuna.

Grindavík er einnig framkvæmd sem er í fullum gangi og verður auðvitað lokið við. Þessar tvær framkvæmdir eru fagnaðarefni en þær eru í gangi og þeim ber auðvitað að ljúka eins og öllum góðum verkum.