Hafnaáætlun 1999-2002

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 14:18:57 (1580)

1998-12-03 14:18:57# 123. lþ. 32.6 fundur 291. mál: #A hafnaáætlun 1999-2002# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[14:18]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Minn ágæti vinur og félagi Guðmundur Hallvarðsson hefur nú heyrt rangt það sem ég sagði áðan. Ég sagði ekki að nauðsynlegt væri að draga úr mikilvægi Reykjavíkurhafnar. Ég sagði að mikilvægi Reykjavíkurhafnar gæti orðið minna ef aðrar hafnir gætu talist miðlægar dreifingarhafnir eins og Reykjavík er í dag. Þá yrðu fleiri slíkar hafnir í landinu, í dag eru það Reykjavík og Akureyri. Ef við getum sagt að einhverjir vöruflutningar séu um aðrar hafnir þá er það Akureyri. Ég sá fyrir mér að í framtíðinni gæti Þorlákshöfn orðið mikilvæg vöruflutningahöfn vegna staðsetningar sinnar því þá styttist siglingin verulega frá meginlandi Evrópu. Skipin gætu farið til Þorlákshafnar, losað og lestað þar og farið síðan til baka til meginlandsins.

Auðvitað munar um allt þegar siglingar eru tíðar og áætlanir strangar. Þá er mikilvægt að stytta siglingarnar eins og kostur er. Það veit hv. þm. mætavel. Við erum báðir lærðir upp á lengd og breidd og þekkjum vel hve veður geta haft mikil áhrif á áætlanir fraktskipa.

Ég viðurkenni að sjálfsögðu mikilvægi Reykjavíkurhafnar og finnst engin ástæða til að draga úr mikilvægi hennar og möguleikum í framtíðinni. Ég held, þó að ég hafi ekki blandað mér í þá umræðu, að samt sem áður hafi hafnarnefndarmenn í Reykjavík alltaf gert sér grein fyrir því að Reykjavíkurhöfn hafi sérstöðu. Landsbyggðarfólk hefur alla tíð viðurkennt þá sérstöðu hennar að þar fari dreifingin fram. Ástæðan fyrir því að menn hafa ekki gagnrýnt þetta verulega mikið er sú að Reykjavíkurhöfn hefur í staðinn ekki fengið styrki úr ríkissjóði til uppbyggingar hafnarinnar, enda hefur hagnaðurinn af þeirri starfsemi verið gríðarlegur sem betur fer. Reykvíkingar hafa haft efni á því að byggja upp glæsilega höfn sem hefur svo sannarlega staðið undir nafni.