Hafnaáætlun 1999-2002

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 14:21:11 (1581)

1998-12-03 14:21:11# 123. lþ. 32.6 fundur 291. mál: #A hafnaáætlun 1999-2002# þál., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[14:21]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mikilvægi Reykjavíkurhafnar fer ekki á milli mála, það er rétt. Þegar menn eru að tala um að nauðsynlegt sé að byggja upp Þorlákshöfn til þess að gera hana að aðalhöfn landsins, ja, af hverju ekki Dyrhóley? Það hefur oft verið í umræðunni, að byggja upp höfn í Dyrhóley.

Málið er að það hefur verið talið kosta allt of mikið. Það er nákvæmlega sama og með Þorlákshöfn. Ef menn ætla að byggja þá höfn upp og gera að stórskipahöfn þá kostar það peninga. Á meðan verður ekki veitt fjármagn til Grindavíkurhafnar, Kópavogshafnar eða Hafnarfjarðarhafnar, það er alveg ljóst. Menn tala hér út og suður eins og nógir peningar séu til til að byggja upp hafnir á svo mörgum stöðum sem mönnum hentar í það og það skiptið.

Hafa menn gleymt því? Ég hélt að hv. þm. Kristján Pálsson væri alveg meðvitaður um að skipin eru að stækka. Þau þurfa meira rými, betri hafnir og stærri bryggjur. Þá þarf um leið meira uppland og meira hafnarsvæði. Reykjavíkurhöfn hefur mætt þessu og það leitt til þess að vöruverð hefur lækkað. Það skiptir öllu máli. Það skiptir miklu máli að skip fái fljóta, góða og örugga afgreiðslu. Tíðni ferða skiptir máli, stærð skipanna skiptir máli og það vörumagn sem þau geta flutt skiptir máli vegna kostnaðar vörunnar.

Þorlákshöfn þarf talsvert fjármagn til þess að verða að alvöruhöfn en þá verða ekki byggðar aðrar hafnir á meðan.

Þess má og geta að bæði Landhelgisgæslan og Hafrannsóknastofnun hafa haft skip sín hér í Reykjavíkurhöfn án endurgjalds. Menn hafa nú ekki haft orð á því. Hitt er annað mál, eins og ég kom inn á áðan, að Reykjavíkurhöfn hefur haft hag af því að hafa hér kaupskipaflotann að megninu til en fiskiskipaflotinn, það er með hann hér í Reykjavík eins og úti á landi að hafnargjöld og vörugjöld af honum eru ekki í neinu samræmi við þá not sem hann hefur af höfninni og þann kostnað sem því fylgir.