Fjáraukalög 1998

Föstudaginn 04. desember 1998, kl. 11:06:13 (1616)

1998-12-04 11:06:13# 123. lþ. 33.12 fundur 173. mál: #A fjáraukalög 1998# frv., Frsm. minni hluta SJóh
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 123. lþ.

[11:06]

Frsm. minni hluta fjárln. (Sigríður Jóhannesdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. minni hluta fjárln. um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1998. Nál. er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Markmiðið um hallalaus fjárlög næst ekki á þessu ári sem margir vilja kenna við góðæri og margt bendir til að hallinn verði jafnvel meiri en við blasir í frumvarpinu. Í því sambandi bendir minni hlutinn á eftirfarandi atriði:

Með tilliti til þróunar síðustu mánaða er líklegt að tekjur af virðisaukaskatti séu ofáætlaðar sem nemur 1,5--2 milljörðum kr.

Launahækkanir milli ára virðast vanmetnar og munu að öllum líkindum verða um 2% umfram það sem gert var ráð fyrir.

Líkur eru einnig á að lífeyrisskuldbindingar verði hærri en reiknað er með í þessu frumvarpi.

Ljóst er að fjárhagsvandi sjúkrahúsanna í Reykjavík er ekki leystur nema að hluta til í frumvarpinu.

Fjárlög ársins 1998 gerðu ráð fyrir tekjuafgangi að fjárhæð 133 millj. kr. Heildartekjur voru áætlaðar 165.810 millj. kr. en gjöld 165.677 millj. kr. Þær breytingar sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu og í framkomnum breytingartillögum hafa það í för með sér að í stað tekjuafgangs í fjárlögunum má nú reikna með tekjuhalla í árslok að fjárhæð 3.396 millj. kr. Tekjur aukast um 9.090 millj. kr. en gjöldin aukast um 12.626 millj. kr.

Við afgreiðslu fjárlaga þessa árs komust fulltrúar minni hlutans að þeirri niðurstöðu að tekjur ríkissjóðs væru verulega vanáætlaðar. Minni hlutinn bendir á að efnahagsforsendur fjárlaga 1997 reyndust fjarri lagi. Sama er upp á teningnum nú. Tekjur og útgjöld reynast verulega vanáætluð. Það er áhyggjuefni hversu ónákvæmar spár um helstu þjóðhagsstærðir hafa reynst síðustu ár og er ástæða til þess að athuga sérstaklega hvernig á því stendur og hvað er til úrbóta.

Með tilvísun í nefndarálit minni hluta fjárln. vegna sl. ára allt frá 1995 staðfestist ónákvæmni og ómarkviss vinnubrögð í þessum efnum. Þar kemur í ljós að mjög margar veigamiklar forsendur voru öll árin verulega vanáætlaðar eða ofáætlaðar. Þannig má nefna sem dæmi að einkaneyslan var öll þessi ár miklu meiri en spáð var og gert ráð fyrir í forsendum fjárlaga. Árið 1995 var gert ráð fyrir að einkaneysla mundi aukast um 2,5% en reyndin varð 4,2% eða 68% hærri tala. Árið 1996 var gert ráð fyrir við gerð fjárlaga að einkaneyslan mundi aukast um 4,2% en reyndin varð 6,4% eða 52% hærri tala. Árið 1997, eða á síðastliðnu ári, var spáin 3,5% en reyndin varð 5% eða 42% frávik. Árið 1998 var spáð að einkaneyslan mundi aukast um 5% en niðurstaðan er 10% aukning eða 100% meiri en áætlað var.

Minni hlutinn gagnrýndi harðlega ýmsar ráðstafanir ríkisstjórnarinnar og meiri hluta Alþingis á gjaldahlið fjárlaga 1997, sérstaklega handahófskennd vinnubrögð við fjárveitingar og niðurskurð í heilbrigðismálum. Það var deginum ljósara að afgreiðsla fjárlaga þess árs jók aðeins vandann í heilbrigðiskerfinu og öll varnaðarorð minni hlutans í þeim efnum hafa reynst rétt. Sparnaðarhugmyndir voru fullkomlega óraunhæfar og að mestu óútfærðar eins og niðurstöður þessa frumvarps sýna. Vandanum var aðeins vísað til framtíðar. Með vísun til umsagnar Ríkisendurskoðunar um fjáraukalagafrumvarpsið staðfestist réttmæti gagnrýni minni hluta fjárlaganefndar í þessum efnum. Mestur er vandi stærstu sjúkrahúsanna. Staðreyndir eru þessar: Uppsafnaður fjárhagsvandi í árslok 1997 á Sjúkrahúsi Reykjavíkur og Ríkisspítölum nam 677 millj. kr. hjá báðum sjúkrahúsunum og áætlaður vandi að óbreyttum rekstrarumsvifum nemur 800 millj. kr. Samtals er fjárhagsvandinn því 1.477 millj. kr. Í frumvarpinu er lagt til að bæta sjúkrahúsunum 459 millj. kr. vegna uppsafnaðs halla fyrri ára, en 1.000 millj. kr. fjárhagsvandi er látinn óleystur. Gert er ráð fyrir að sjúkrahúsin geti dregið með sér mánaðarveltu sem nemur samtals um 400 millj. kr., en óraunhæfar hagræðingar- og sparnaðarkröfur ríkisstjórnarinnar hafa leitt til óviðunandi ástands á þessum stofnunum. Starfsfólk býr við sífellda óvissu og aukið vinnuálag sem leiðir til örðugleika í samskiptum stjórnenda og starfsfólks.

Minni hlutinn hefur ýmislegt við frumvarpið að athuga og ekki síst hvernig aukaframlög eru ákveðin. Í flestum tilvikum eru þær ákvarðanir teknar við ríkisstjórnarborðið og ekki beðið eftir samþykki Alþingis án þess að séð verði að það hefði ekki verið gerlegt. Fjárveitingavaldið er hjá Alþingi, en framkvæmdarvaldið hefur heimild til að ráðstafa fé ef sérstaklega stendur á. Ráðherrum ber tvímælalaust að fara sparlega með heimildir til aukafjárveitinga. Reyndin er talsvert önnur eins og margsinnis hefur verið gagnrýnt og um það má nefna mörg dæmi í frumvarpinu.

Minni hlutinn átelur harðlega að ekki skuli vera gerð tilraun til að rétta hlut þeirra sem eingöngu hafa framfærslu af grunnlífeyri með tekjutryggingu vegna elli eða örorku. Samkvæmt útreikningum fagmanna á þróun launa og lífeyris á síðastliðnum fjórum árum vantar 1.842 millj. kr. upp á að greiðslur til þessa fólks jafnist á við lægstu umsamin laun. Á þessu ári skortir 148 millj. kr. til þess að jöfnuði sé náð miðað við meðaltalsvísitölu launa. Því leggur minni hlutinn til að þessum hópum verði bættur tekjumissir sem svarar þeirri upphæð. Einnig leggur minni hlutinn til aukin framlög til Ríkisspítala og Sjúkrahúss Reykjavíkur til að minnka rekstrarhallann svo að við hann megi una.

Minni hlutinn áskilur sér rétt til að styðja einstakar breytingartillögur meiri hlutans og fylgja öðrum sem fram kunna að koma en situr að öðru leyti hjá við afgreiðslu frumvarpsins.``

Undir minnihlutaálitið skrifa Sigríður Jóhannesdóttir, Gísli S. Einarsson, Kristinn H. Gunnarsson og Kristín Halldórsdóttir.

[11:15]

Hæstv. forseti. Í þessu frv. til fjáraukalaga fyrir 1998 sem við ræðum hér eru fjárlög ársins í fyrsta sinn gerð upp á rekstrargrunni og eru því margir óvissuþættir í niðurstöðutölum og því nokkuð á reiki hvað menn telja t.d. að lífeyrisskuldbindingar eigi að reiknast á og er því vandinn einkar stór vegna kerfisbreytinga sem hafa áhrif til hækkunar á lífeyrisskuldbindingum þar sem hluti af yfirvinnu fer nú inn í fastalaun. Þessi framsetningarmáti á fjárlögum var lögleiddur hér á landi fyrir nokkrum árum og fyrstu fjárlögin sem voru sett fram með þessum hætti voru fjárlög fyrir 1998 og af sjálfu leiðir að fjáraukalögin eru í sama stíl.

Ég var ekki komin á þing þegar umræður áttu sér stað um þá breytingu á lögum um fjárreiður ríkisins sem hér sér stað. Mér skilst að mikill einhugur hafi verið um þessa breytingu en ég verð að segja að mér finnst eðlilegra að sjálf fjárlög ársins væru gerð upp á greiðslugrunni eins og áður tíðkaðist og mun enn vera gert í mörgum nálægum löndum.

Auðvitað er sjálfsagt að leggja fram til hliðar við fjárlagafrv. þær fjárhæðir sem ríkið hefur skuldbundið sig til að reiða fram einhvern tíma í framtíðinni en mér finnst óeðlilegt og ég lýsi því sem minni persónulegu skoðun, þetta er ekki endilega skoðun minni hluta nefndarinnar, að mér finnst óeðlilegt að slíkur slumpareikningur eins og lífeyrissjóðsskuldbindingar sýnast vera í fjárlögum þessa árs ráði niðurstöðutölum á fjárlögum auk þess sem eilítið ruglingslegt er enn sem komið er í fjárlagafrv., en það horfir væntanlega til bóta, hvort framtíðarskuldbindingar eru inni í tölum fjárlagafrv. eða ekki.

Í þessu frv. sem hér um ræðir er tilhögun breytt hvað varðar flutning umframgjalda og ónotaðra fjárheimilda milli ára og er þar stuðst við fyrrnefnd lög um fjárreiður ríkisins. Þetta hefur það líka í för með sér að umframgjöld ársins flytjast milli ára og dragast frá fjárveitingum næsta árs og fer þá að kárna gamanið hjá þeim stofnunum, eins og stóru spítölunum í Reykjavík, sem Ríkisendurskoðun telur að dragi á eftir sér 1 milljarð í halla yfir áramótin og sér hver maður að einhvern botn verður að fá í það vandræðamál.

Svo ég víki að einstökum gjaldaliðum frv. þá vil ég fyrst vekja athygli á lið sem heyrir undir forsrn. og er um 45 millj. kr. fjárveitingu vegna kostnaðar við sölu hlutabréfa, sem mikið hefur verið gert úr að selst hafi á auga lifandi bragði, og nam söluandvirðið 4 milljörðum 665 millj. kr. Af þessum 49,5 á að borga endurskoðunar- og ráðgjafarfyrirtæki 4,5 millj. fyrir ráðgjöf í sambandi við söluna og restina eða 45 millj. á að greiða til allra innlendra verðbréfafyrirtækja, hvorki meira né minna sem komu að sölu þessara bréfa. Það er eins gott að þau voru ekki lengur að þessu ef þau hefðu verið á tímakaupi sem sjálfsagt hefur ekki verið í þessu tilfelli. En skyldi ekki hafa verið hægt að selja þessi eftirsóttu hlutabréf á ódýrari hátt fyrir ríkið? Mér er spurn.

Menn virðast hafa vaðið í villu og svima hvað varðar kostnað af kjarasamningum sem gerðir voru við kennara þrátt fyrir að 175 millj. væru í fjáraukalagafrv. sjálfu. Vegna sérkennslu annars vegar og almenns rekstrar hins vegar lagði ráðuneytið til við meðferð fjárln. að við væri bætt hvorki meira né minna en 113 millj. kr. vegna vanmetins launakostnaðar í framhaldsskólum. Samt eru ýmsir með efasemdir um að nægilega hafi verið komið til móts við skólana og telja að enn séu ekki öll kurl komin til grafar. Það er auðvitað ekki nógu gott þegar skrifað er undir kjarasamninga að þeir sem eiga að borga brúsann geri sér ekki grein fyrir hvað þeir muni kosta svona í stórum dráttum og má e.t.v. bæta vinnubrögð ráðuneyta í þessum efnum. Ekki var þarna um að ræða aðlögunarkjarasamningana en þeir virðast hafa farið eins og minkar í hænsnabú inn í ríkisstofnanirnar og launagreiðslur almennt farið mjög úr skorðum við gerð þeirra og var það e.t.v. aldrei nein góð latína að fela yfirmönnum lítilla ríkisstofnana að semja um laun við sína nánustu samstarfsmenn.

Margar eru þær greinar í þessum fjáraukalögum sem við minnihlutamenn erum stolt og ánægð með að styðja. Þar er af ýmsu að taka, t.d. má þar nefna að samþykkt var að veita 5 millj. kr. til Götusmiðjunnar--Virkisins sem framlag til reksturs frá júní til áramóta með því skilyrði að þjónustusamningur verði gerður við rekstraraðila. Einnig var veitt 5 millj. kr. til að gera upp gamlan rekstrarhalla Krýsuvíkursamtakanna svo að þau nái vopnum sínum en þau voru á sl. ári mjög sliguð af uppsöfnuðum rekstrarvanda og við blasti að loka þyrfti heimilinu ef ekki kæmi til hjálp ríkisins. Svo illa fór ekki og það þökkum við okkur í fjárln. Alþingis að stórum hluta.

Síðast en ekki síst samþykkti nefndin 80 millj. kr. í fjárveitingu til fimm landsbyggðarsjúkrahúsa sem hafa átt við erfiðan hallarekstur að stríða í þeirri von að þetta fjárframlag megi verða til að rýmka fyrir gerð þjónustusamninga. Þetta styður minni hluti nefndarinnar einhuga sem og eins og ég nefndi áður mörg önnur atriði sem hér verða ekki upp talin.

Ég vil að lokum ítreka það sem upp kemur í nál. að varast ber að misnota þann möguleika sem er í kerfinu til aukafjárveitinga. Samkvæmt lögum hafa ráðherrar möguleika til að nýta sér aukafjárveitingar ef sértaklega stendur á en fjárveitingavaldið er og á að vera hjá Alþingi. Mér sýnist að í þessu fjáraukalagafrv. hafi ráðherravaldið á stundum og of oft gengið nokkuð léttum fótum kringum lagaákvæði sem gilda um þessi efni.