Fjáraukalög 1998

Föstudaginn 04. desember 1998, kl. 11:42:07 (1618)

1998-12-04 11:42:07# 123. lþ. 33.12 fundur 173. mál: #A fjáraukalög 1998# frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 123. lþ.

[11:42]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Gísli Einarsson ræddi nokkuð um þá möguleika sem hann telur á auknum tekjum. Við erum að fjalla um fjáraukalög fyrir árið 1998 og hv. þm. vísaði til þess sem heimildar að á heimasíðu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur væri að finna upplýsingar um skattsvik eða líkur til þeirra þannig að hægt væri að ná inn í ríkissjóð meiri tekjum.

Ég tel að þessi heimasíða sé kannski ekki besta heimildin til þess að byggja tillögur á um aukin útgjöld ríkissjóðs, ég tel það alveg af og frá, en vek hins vegar athygli á því að í nál. hv. minni hluta fjárln. er vakin sérstök athygli á því að líkur séu til þess að virðisaukaskattstekjurnar séu ofáætlaðar. Þarna stangast því hvað á annars horn. Það er spurning um það og um það vildi ég heyra frá hv. þm.: Hvort eigum við að taka mark á nál. minni hluta fjárln. eða auglýsingaherferð sem birtist á heimasíðu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur?