Fjáraukalög 1998

Föstudaginn 04. desember 1998, kl. 11:43:41 (1619)

1998-12-04 11:43:41# 123. lþ. 33.12 fundur 173. mál: #A fjáraukalög 1998# frv., GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 123. lþ.

[11:43]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er einfalt að svara þessu. Þegar fram kemur í áliti minni hlutans að það vantar 1,5--2 milljarða miðað við áætlun er það vegna þess að ekki hefur verið haldið nægjanlega vel á málunum af hálfu ríkisstjórnar um að ná inn þeim fjármunum sem menn vita að eru í pípunum --- og ég vitna til hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sem er með á vefpistli sínum upplýsingar um spurningar sínar og svör frá hæstv. fjmrh. varðandi þetta málefni. Fyllsta ástæða er til að ræða þetta mál í tengslum við fjáraukalög vegna þess að ekki hefur verið nægjanlega vel haldið á málum varðandi skil um virðisaukaskatt, það er alveg klárt mál. Þetta hafa ekki bara einstakir þingmenn orðið varir við, ég hygg að allt þjóðfélagið viti að það hefur verið um undanskot að ræða á virðisaukaskatti og það má heita að hverjum einasta manni í íslensku samfélagi bjóðist að skjóta virðisaukaskatti undan frá ríkinu. Þess vegna þarf að grípa á málinu, þess vegna er málið rætt úr þessum stóli, þess vegna er komið inn á málið frá þessum vettvangi, bæði með minnihlutaáliti, sem ég undirrita, og ásamt með tilvitnunum í fyrirspurnir hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Ég tel að þetta séu nægjanleg rök fyrir því að koma að málinu á báða vegu.