Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Mánudaginn 07. desember 1998, kl. 15:22:01 (1726)

1998-12-07 15:22:01# 123. lþ. 34.7 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, Frsm. 1. minni hluta ÖS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 123. lþ.

[15:22]

Frsm. 1. minni hluta heilbr.- og trn. (Össur Skarphéðinsson) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil ekki taka að öllu leyti undir orð síðasta hv. þm. sem sagði að æskilegt væri að allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar kæmu hingað og þeir gætu vafalaust allir lært eitthvað af því. Ég tel t.d. að þetta frv. verði ævinlega ofvaxið skilningi hæstv. samgrh., svo einhver sé nefndur.

En ég kem hingað, herra forseti, til þess að leggja áherslu á það sem kom fram í máli fyrri ræðumanna undir þessum lið. Ég held að nauðsynlegt sé að hæstv. dómsmrh. verði við umræðuna. Af hverju? Vegna þess að í því frumvarpi sem menn hafa verið að reyna að draga með töngum út úr ríkisstjórninni er að finna mikilvæg ákvæði sem liggja ekki skýr fyrir. Annars vegar er um að ræða skilgreiningu á persónulegum upplýsingum sem fer algjörlega í bága við þá skilgreiningu sem er að finna í frv. um miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði.

Hins vegar er þar umbúnaður tölvunefndar lagður fyrir. Hann skiptir máli fyrir menn eins og mig sem hafa öðruvísi áhyggjur af persónuvernd en flestir þeir sem hér hafa talað. Ég er þeirrar skoðunar að persónuverndin eins og hún er í frv. í dag sé ásættanleg frá mínum bæjardyrum séð, eins og ég skýri hér á eftir, en það hangir allt á stöðu tölvunefndar. Hæstv. heilbrrh. sagði beinlínis í umræðunni sem fór fram 15. okt. að það frv. væri á leiðinni í gegnum ríkisstjórnina og mundi koma hingað inn í þingið. Ég held að búið sé að samþykkja það í þingflokki hæstv. heilbrrh. en það er strand í þingflokki Sjálfstfl.

Er það vegna þess að það er ósætti um hvaða aðbúnað á að veita tölvunefnd? Á henni hangir gríðarlegt mikilvægi í frv. um gagnagrunninn og þess vegna er varla hægt að gera kröfu til þess að menn geti farið í almennilega rökvísa umræðu sem byggir á einhverju öðruvísi en menn hafi það frv. a.m.k. fyrir framan sig og geti séð hver vilji ríkisstjórnarinnar er í þessum efnum, þó ekki sé búið að samþykkja það.

Þess vegna tel ég að ef við fáum ekki þeirri kröfu fullnægt að frv. komi fram sé lágmark að sá sem lagði fram frumvarpið og veit hvað í því stendur og getur svarað fyrir það sé til andsvara út af þessum þætti.