Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Mánudaginn 07. desember 1998, kl. 17:33:11 (1740)

1998-12-07 17:33:11# 123. lþ. 34.7 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, Frsm. 1. minni hluta ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 123. lþ.

[17:33]

Frsm. 1. minni hluta heilbr.- og trn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Hér kemur stráið sem hv. þm. talaði um og skelfur nú undan þeim stormi sem geysist frá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni. Hv. þm. spyr mig ýmssa spurninga og gerir mér, eins og jafnan er hans háttur, upp skoðanir ef honum býður svo við að horfa.

Ég held að það sé tiltölulega langt síðan að afstaða mín til þessa máls lá fyrir. Ég greindi algjörlega skýrt frá afstöðu minni til upplýsts samþykkis og ég var á öndverðum meiði við hv. þm. um það. Afstaða mín til persónuverndarinnar hefur legið fyrir nokkuð lengi líka. Það liggur alveg ljóst fyrir að ég hef frá upphafi verið algjörlega andvígur einkaréttinum og sömuleiðis þeim takmörkunum sem gerðar eru á aðgengi vísindamanna. Þessir tveir síðustu þættir eru úrslitaþættir að mínu viti.

Það getur vel verið að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson geti komið hingað og lesið upp úr mörgum álitum sem vísa til þess að persónuvernd sé ekki að öllu leyti fullnægt. Ég leyfi mér að taka svo stórt upp í mig, herra forseti, að segja og ég veit að það hryggir hv. þm., að að ýmsu leyti finnst mér umræðan um persónuverndina hafa verið móðursýkisleg á köflum og ekki að öllu leyti fallast í faðma við rökin sem fyrir hendi voru.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson heyrði mig segja við 1. umr. að ég teldi að gögnin sem er að finna í hinum miðlæga gagnagrunni á heilbrigðissviði væru fræðilega persónugreinanleg. Hann heyrði mig nú við 2. umr. greina frá því að eftir þá breytingu sem meiri hlutinn gerir á málinu á síðustu metrunum þá tel ég að búið sé að svipta burt mikilvægri stoð verndarinnar eins og hún var lögð upp af hálfu meiri hlutans og ég sagði í minni ræðu að ég tel að miklu auðveldara sé að persónugreina þau. En það breytir ekki þeirri skoðun minni, herra forseti, að ég tel aðra þætti miklu öflugri til verndar. Þá er ég að tala um það öryggiseftirlit sem er reist í kringum grunninn, eldtraustan múr eins og menn kalla það, eftirlit tölvunefndar, vísindasiðanefndina og óháðan úttektaraðila. Ég gæti talið upp 13 svona atriði ef hv. þm. vill hlusta á mig þegar ég held seinni ræðu mína á morgun