Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 08. desember 1998, kl. 17:33:16 (1800)

1998-12-08 17:33:16# 123. lþ. 35.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 123. lþ.

[17:33]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. heilbrrh. tók því miður ekki eftir hvað ég sagði. Ég sagði að ég væri ekki að segja að stjórn heilbrigðismálanna væri slæm á Íslandi. Ég tók það sérstaklega fram. En ég fullyrti að hún gæti orðið betri. Það var það sem ég sagði.

Ég veit það af alþjóðlegum skýrslum og vitnisburði eins og Alþjóðabankans og fleiri að ástand heilbrigðismála er mjög gott á Íslandi. Ég benti á að við værum að eyða umtalsverðum peningum í hærri kantinum miðað við aðrar þjóðir en þá ber að minnast þess að aldurssamsetning þjóðarinnar er lág og við verðum að gæta þess að á næstu áratugum mun kostnaðurinn fara vaxandi. Þess vegna er svo mikilvægt að við stjórnum eins vel og kostur er á þeim peningum sem eru að fara í heilbrigðismálin vegna þess að við viljum hafa góða heilbrigðisþjónustu. En það mega líka allir vita það því að það er viðfangsefni allra þjóðþinga Vestur-Evrópu að reyna að hemja þennan kostnað. Menn vita að það er hægt með góðri samvisku að eyða óendanlegum peningum til heilbrigðismála því að næg eru verkefnin. Þetta vita allir. Þess vegna eru menn að reyna að fást við þessa þekkingu. Þess vegna eru menn að reyna að nýta nútímatækni í stjórnun, nákvæmri stjórnun með því að skilgreina kostnað, með því að skilgreina þarfir og með því að greina kostnað. Þetta eru aðferðirnar sem eru notaðar í dag í heiminum og þetta er okkur bráðnauðsynlegt að gera í heilbrigðismálum Íslands eins og í heilbrigðismálum allra annarra Vestur-Evrópuríkja. Þess vegna er það sem ég er að brýna menn á þessu að við megum ekki láta heilbrigðismálin vaxa vegna þess að við höfum svo mikla þörf fyrir peninga ríkissjóðs til annarra verkefna. Ég hef aldrei sagt að þau væru of mikil. Ég benti bara á að þau væru í hærri kantinum.