Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Miðvikudaginn 09. desember 1998, kl. 15:35:00 (1884)

1998-12-09 15:35:00# 123. lþ. 36.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, Frsm. meiri hluta SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 123. lþ.

[15:35]

Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég las hér upp sérstaklega kaflann um einkaréttinn í álitsgerð Lagastofnunar og þar kemur fram að þetta geti samrýmst EES-samningnum. Hins vegar er tekin nokkur áhætta. Það er alveg rétt. Það er tekin nokkur áhætta því að þetta hefur aldrei verið sett upp áður.

Hvað það varðar að ekki sé hægt að fallast á að taka inn sérstakt vinnuferli gagnvart erfðafræðilegum upplýsingum þá tel ég að þau rök sem komu fram áðan hafi ekki verið mjög sterk. Ég tel að æskilegt sé að skoða þann möguleika að fela tölvunefnd að skoða sérstakt vinnuferli sem væntanlegur starfsleyfishafi setur upp gagnvart samkeyrslu erfðafræðiupplýsinga við gagnagrunn sinn, þar sem ég tel að það væri eðlilegra heldur en að starfsleyfishafi færi daglega, hugsanlega oft á dag, til að fá leyfi til samkeyrslu. Það væri bara til að æra óstöðugan.

Varðandi dulkóðunina þá er rétt að það kemur fram í umsögn Stika að það eigi að geyma upplýsingarnar á dulkóðuðu formi. Ég hef hins vegar rætt við aðila sem bjuggu til það álit, sem telja að hægt sé að geyma þær ódulkóðaðar. (Forseti hringir.) Og það er ekki rétt að Íslensk erfðagreining hafi gert ráð fyrir því að þær yrðu geymdar dulkóðaðar.