Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Miðvikudaginn 09. desember 1998, kl. 15:36:30 (1885)

1998-12-09 15:36:30# 123. lþ. 36.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, Frsm. 1. minni hluta ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 123. lþ.

[15:36]

Frsm. 1. minni hluta heilbr.- og trn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Hér kemur það fram sem hefur einkennt málflutning stjórnarliða. Þeir hafa ekki lært málið. Þeir hafa ekki lesið heima. Þeir vita ekki hvað þeir eru að tala um.

Ég spurði hv. þm. Siv Friðleifsdóttur hvort hún hefði gert sér grein fyrir því að allt fram að því að 2. umr. lauk hafi Íslensk erfðagreining gert ráð fyrir því að upplýsingarnar yrðu verndaðar með því að þær yrðu geymdar dulkóðaðar í gagngrunninum. Nú ætla ég, herra forseti, að leyfa mér að benda stallsystur minni úr heilbr.- og trn. á skjal sem er dagsett 26. okt. 1998 eftir Hákon Guðbjartsson, og sem ber yfirskriftina Útfærsla á nafnleyndarkerfi fyrir miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði, biðja hana um að fletta upp á bls. 6, sjöunda lína ofan frá, þar kemur þetta skýrt fram.

Herra forseti. Má ég biðja um það að þegar hv. þingmenn stjórnarliðsins eru hér að verja vondan málstað með alla forustu Íslenskrar erfðagreiningar á herðunum, þá kynni þeir sér a.m.k. málið og kynni sér þann vonda málstað sem þeir eru að verja hérna.