Tryggingagjald

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 14:27:43 (1965)

1998-12-10 14:27:43# 123. lþ. 37.3 fundur 228. mál: #A tryggingagjald# (lífeyrissparnaður launamanns) frv. 148/1998, PHB
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[14:27]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Oft skoða menn einstök mál mjög ítarlega, setja sig vel inn í þau og hugleiða hvaða leiðir eigi að fara til að ná fram ákveðnum markmiðum. Menn vilja t.d. ná því fram að þjóðin fari að spara. Þá er hugleitt hvernig hægt sé að fá hana til að spara. Menn láta sér detta í hug að nota lífeyriskerfið til þess og veita skattafslátt þannig að fólk fari nú að spara.

Nú þegar hefur verið samþykkt að hægt sé að borga aukaiðgjald til lífeyrissjóða sem sé frádráttarbært frá skatti. Þetta á að vera hvati fyrir fólk til að leggja meiri peninga í lífeyrissjóð, auka þjóðhagslegan sparnað og sparnað einstaklinga. Hvatinn er að menn geta dregið iðgjaldið í lífeyrissjóðinn frá skatti. Þegar þeir fá síðan greitt úr sjóðnum eftir áratugi borga þeir að sjálfsögðu skatta af þessum peningum aftur og til viðbótar tekjuskatt af vöxtum og verðbótum af þessu fé. Ef þeir keyptu fyrir sama pening spariskírteini í dag þá gætu þeir að sjálfsögðu ekki dregið upphæðina frá skatti en spariskírteinin yrðu skattfrjáls eftir nokkur ár, vextir og verðbætur mundu falla undir fjármagnstekjuskatt, þ.e. 10%. Fyrir einstaklinga er þetta því frekar óskynsamlegt nema menn búist við að skattkerfinu verði umbylt og breytt eins og viðbúið er að gerist á þeim áratugum sem við erum að horfa til í þessu sambandi.

[14:30]

Til að örva menn enn frekar til að stunda þessa sparnaðarstarfsemi létu menn sér detta í hug að atvinnurekandinn fái alltaf endurgreitt eða lækkun á tryggingagjaldi sem nemur 0,2%. Það þýðir að þarna kemur 10% framlag frá ríkinu inn í þennan sparnað til að örva hann enn frekar. Þetta er nú gott og blessað og mjög ánægjulegt að ríkið er tilbúið til að leggja með í þessum sparnaði. En þá skulum við horfa á vissa hluti. Í fyrsta lagi er það þannig að þegar kerfi eru gerð mjög flókin þá nýtast þau ekki nema fáum skattgreiðendum, og eftir því sem kerfin eru flóknari þeim mun færri munu nýta sér þann möguleika sem upp á er boðið. Það eru aðallega þeir sem eru velmegandi og hafa endurskoðendur á sínum snærum sem nýta sér kerfin þegar þau eru orðin of flókin. Hér er verið að flækja kerfið allverulega og svo mikið að ég geri ráð fyrir því að mjög fáir muni vita af þessum möguleika eftir nokkur ár, mjög fáir, vegna þess að það kostar óskaplega upplýsingu að upplýsa menn, atvinnurekendur, litla atvinnurekendur úti um allt land, sem eru jú að gera eitthvað annað en akkúrat að borga skatta. Það er ekki meginhlutverk atvinnulífsins að borga skatta og nýta sér skattkerfi, heldur að framleiða fiskflök eða eitthvað slíkt, t.d. herta hausa. Það er ekki meginstarfsemi lítilla fyrirtækja eða fyrirtækja almennt að standa í því að spara í lífeyrissjóð eða borga skatta, eða komast hjá því að borga skatta. Mín trú er því sú að mjög fáir muni vita af þessu eftir nokkur ár. Einstaka endurskoðandi veit af þessu og hann mun ráðleggja sínum kúnnum að gera þetta, en mjög fáir munu vita þetta þannig að notkunin verður frekar lítil.

Svo kemur meginatriðið, herra forseti, og það er að þessi 0,2% fyrir hvern mann eru ekki nema svona 200--300 kr. á mánuði. Við erum að tala um 200--300 kr. Ef maður er með 100 þús. kr. þá er þetta 200 kall. Ef maður er með 150 þús. kr. þá eru þetta 300 kr., 300 kr. á hverjum mánuði. (VE: Viltu ekki bæta við þetta?) Það getur verið að launin hækki og hátekjumennirnir geta kannski notað þetta frekar. En við erum að tala um mjög litlar upphæðir. Allar færslur í bókhaldi kosta sitt. Það hefur jafnvel verið talið og ég hef notað það sem þumalputtareglu að hver færsla kosti 500 kr. þannig að fyrirtækin munu þurfa að borga með þessum sparnaði. Þau munu ekki fá neitt fyrir þetta. Það þarf að breyta tölvukerfum og þeir sem þekkja til þeirra viðskipta, þeir hv. þm. sem hafa rekið fyrirtæki og hafa borgað fyrir tölvukerfi, vita að sjaldan er talað um minna en 50 til 100 þús. kr. í breytingum á tölvukerfum.

Það sem ég held að muni því gerast þegar einhver launþegi rekst á þetta lagaákvæði einhvern tímann í framtíðinni og kemur til atvinnurekanda síns og segir: Heyrðu, þú getur dregið frá 0,2% af laununum mínum. Þá mun atvinnurekandinn fórna höndum og segja: Í guðanna bænum, ég hækka bara launin þín um 5 þúsund kall á ári og þá ertu betur settur. Við skulum bara sleppa þessu.

Það sem ég held að hafi gerst er að einhverjir sérfræðingar, sem eru orðnir mjög miklir sérfræðingar í ákveðnum þáttum, einblína á þessa þætti og finna lausnir sem eru gjörsamlega óframkvæmanlegar vegna þess að upplýsingin um þessar litlu færslur, þessa litlu styrki, er svo dýr, það er svo erfitt að koma þessu á framfæri að menn geta hreinlega ekki notað þetta. Þetta er einmitt dæmi um það hvernig ekki á að flækja skattkerfið. Ég held menn ættu að snúa af þessari leið og reyna að einfalda skattkerfið frekar en flækja það á þennan hátt. Eftir nokkur ár munu einstaka endurskoðendur þekkja þetta og aðrir ekki, þetta er svo flókið. 0,2% er svo lítið af mánaðarlegri greiðslu að það er alveg út í hött að koma með svona styrki. En málefnið er gott, þ.e. að menn ætli sér að auka sparnað og sumir hafa trú á því. Ég held að ekki nema svona 15% í hæsta lagi, kannski 20% af þjóðinni muni nýta 2% í lífeyrissjóðina vegna þess að upplýsingin berst ekki áfram. En ég hugsa að í hæsta lagi muni 2% nýta sér þetta ákvæði vegna þess hvað það kostar í framkvæmd og vinnslu. Við erum að setja lög um ekki neitt.

Ég hygg að þetta muni ekki auka sparnað landsmanna um eyri, enda held ég að það eigi frekar að auka sparnað landsmanna með upplýsingu um gildi sparnaðar fyrir einstaklinga, þ.e. um það hvers virði það er að eiga peninga um mánaðamót í staðinn fyrir að skulda peninga um mánaðamót. Lítið hefur farið fyrir þeirri uppfræðslu hvert gildi sparnaðar sé fyrir einstaklinginn, hvert gildi sparnaðar sé fyrir einstaklinginn til að lifa frjálsara og meira mannsæmandi lífi. Það fer lítið fyrir þessu.

Herra forseti. Ég held því að þetta góða frv., sem er fullt af gæsku og velvilja, muni verða vindhögg.