Tryggingagjald

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 15:06:20 (1976)

1998-12-10 15:06:20# 123. lþ. 37.3 fundur 228. mál: #A tryggingagjald# (lífeyrissparnaður launamanns) frv. 148/1998, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[15:06]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. er hugmyndaríkur maður og sjálfsagt að koma þessari hugmynd í réttan farveg, þeirri síðustu sem hér var nefnd. En það er ekki svo að þeir sem ekki borga skatta geti ekki hagnýtt sér þetta. Auðvitað geta allir launþegar hagnýtt sér þetta. Auðvitað er skynsamlegt fyrir alla að gera það og leggja með þeim hætti fyrir til efri áranna. (Gripið fram í.) Þeir fá ekki skattfrestun á þessu fjármagni, það er rétt, eins og þeir sem ella mundu borga skatt af þessum tekjum. Það er engu að síður jafnhyggilegt fyrir viðkomandi að færa sér þennan möguleika í nyt og alveg ástæðulaust fyrir þingmanninn að gera lítið úr því. Ég held hann ætti að ganga í lið með okkur og reyna að hvetja fólk til að taka þátt í þessu. Ég held að það væri betra.

Það verður ekki mikil spariskírteinaútgáfa hjá ríkissjóði á næsta ári. Það kostar örugglega heilmikið umstang og ama að bjóða upp á fimm þúsund króna styrk og hvorki einfaldara né kostnaðarminna fyrir ríkið, spái ég, þó ég hafi ekki rannsakað þessa hugmynd þingmannsins.