Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1999

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 15:59:25 (1992)

1998-12-10 15:59:25# 123. lþ. 37.7 fundur 321. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1999# (breyting ýmissa laga) frv. 158/1998, ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[15:59]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Varðandi fyrri spurningu hæstv. forsrh. um góðærið ræddi ég sérstaklega um það sem við köllum misskiptingu góðærisins. Góðærið hefur komið í hlut ýmissa í landinu, hagvöxturinn, en það hefur líka farið fram hjá öðrum stéttum. Við höfum horft upp á og það eru tölur til um það, að misskipting hafi aukist í samfélaginu undanfarin missiri.

[16:00]

Hvað varðar síðari spurninguna, um að fátækt hefði aukist, þá get ég bent hæstv. forsrh. á tvo hluti sem hann ætti að kynna sér. Það er annars vegar skýrsla sem birt var ekki alls fyrir löngu einmitt um samanburð á fátækt hér á landi og í nágrannalöndunum. Mig minnir að sá samanburður hafi verið gerður varðandi Norðurlöndin og þá komum við mjög illa út.

Í öðru lagi vil ég benda á þær ábendingar og þau hjálparóp sem hafa borist frá Hjálparstarfi kirkjunnar og öðrum mannúðarsamtökum, mæðrastyrksnefnd og fleirum sem hafa einnig verið í umfjöllun hér undanfarnar vikur. Forsrh. hefur því enga ástæðu til að mínu mati, herra forseti, að vera jafnsjálfhælinn og hann er út af efnahagsástandinu. Það er mjög þröngt hjá mörgum í samfélaginu og því fólki eigum við að gefa gaum.