Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1999

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 16:11:22 (2000)

1998-12-10 16:11:22# 123. lþ. 37.7 fundur 321. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1999# (breyting ýmissa laga) frv. 158/1998, ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[16:11]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. formanni fjárln. athugasemd hans. Það sem ég gerði að umtalsefni var skerðingin á Framkvæmdasjóði fatlaðra og ég nefndi að þetta hefði sést áður. Það sem ég vildi draga fram hvað þennan þátt varðar og kemur einnig fram í þessu frv. er yfirtaka á fleiri verkefnum sem ákveðið var að þessi sjóður sæi um. Ég vil því rifja það upp, herra forseti, að þegar ákveðið var að Framkvæmdasjóður fatlaðra tæki að sér fleiri verkefni var meira að segja bundið í lögum að hann héldi óskertum tekjum, þ.e. að þessar tekjur yrðu ekki skertar. Ég vil benda á það, herra forseti, að tekjur Framkvæmdasjóðs fatlaðra samhliða auknum verkefnum var ekki byrjað að skerða fyrr en í tíð núverandi ríkisstjórnar. Ég held að mjög mikilvægt sé að þessari staðreynd sé haldið til haga.