Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 18:18:50 (2044)

1998-12-10 18:18:50# 123. lþ. 37.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[18:18]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér kemur til atkvæða það ákvæði frv. sem fjallar um hið dæmalausa einkaleyfi. Í því felst réttur til að ráðstafa heilsufars- og erfðaupplýsingum heillar þjóðar, þar með talið fjölmargra aðila sem enga aðstöðu hafa til að koma þar neinum vörnum við, barna, þeirra sem búsettir eru erlendis, framliðinna o.s.frv.

Í ljósi þessa fyrirhugaða einkaleyfis er það enn þá fráleitara en ella að setja lög um einn miðlægan gagnagrunn af þessu tagi og það er, herra forseti, ekki nokkur leið að samþykkja þetta mál eins og það er í pottinn búið. Það hefði að sjálfsögðu skipt máli ef vörsluaðili grunnsins hefði verið annar og engu slíku einkaleyfi hefði verið til að dreifa. En það er með miklum ólíkindum að menn skuli standa frammi fyrir því að fjalla um slíka hluti á Íslandi í lok 20. aldar.