Lífeyrissjóður sjómanna

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 19:44:40 (2072)

1998-12-10 19:44:40# 123. lþ. 37.10 fundur 324. mál: #A Lífeyrissjóður sjómanna# (heildarlög) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[19:44]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir greinargóða framsögu um þetta mál. Ég á sæti í þeirri nefnd sem kemur til með að fjalla um málið og við munum vanda okkur við umfjöllun þess eins og reyndar í öðrum málum. En lífeyrismál eru þess eðlis að þar ber sérstaklega að gæta vandvirkni og sjálfsagt er að fella lögin um Lífeyrissjóð sjómanna að heildarlöggjöfinni.

Ég vil benda á eitt atriði í þessu, þ.e. að þarna er leyst gamalt deilumál um það hverjir eiga sæti í stjórn. Það þekkja menn sem kunnugir eru, í tengslum við Vélstjórafélagið. Þarna er komin tillaga um það gamla ágreiningsefni. En sjóðurinn á sér mjög merkilega forsögu sem einmitt tengist ábyrgð ríkisvaldsins. Ég ætla ekki að fara neitt yfir þann þátt en það gildir að mörgu leyti sérstaða gagnvart þessum sjóði með tilliti til sögunnar.

Ég vildi spyrja hæstv. fjmrh., af því að hann talaði um hina vönduðu umfjöllun sem þarf að vera í þessu máli, hvort nauðsynlegt sé að málið verði að lögum fyrir áramót eða hvort hv. nefnd geti gefið sér meiri tíma til umfjöllunar eins og hugsanlegt er að þurfi. Ég átta mig ekki alveg á þessu eins og frv. er sett fram. Gert er ráð fyrir að það taki gildi um áramót. En ég vildi spyrja með tilliti til þess hvernig menn mundu haga vinnubrögðum því það er rétt sem hæstv. ráðherra nefndi að mikilvægt er að reyna að ná sem víðtækastri samstöðu um það.