Ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 21:08:41 (2086)

1998-12-10 21:08:41# 123. lþ. 37.12 fundur 336. mál: #A ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði# (réttur til styrkja) frv. 143/1998, KÁ
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[21:08]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil eins og hv. síðasti ræðumaður taka undir efni þessa frv. Hér er um réttlætismál að ræða og ég þekki það af eigin reynslu að nemendur í framhaldsskólum munar um dreifbýlisstyrkinn, hvaðan sem þeir fá svo peninga til þess sem á vantar. Það er kannski megingagnrýni mín á þetta frv. eða sú athugasemd sem ég vil gera að tíunda aftur það sem fram kom í ræðu hæstv. menntmrh. að gerð hefur verið könnun á kostnaði nemenda utan af landsbyggðinni og sú könnun leiddi í ljós að sá kostnaður er auðvitað miklu meiri en nemur þessum svokallaða dreifbýlisstyrk. Mér er tjáð að m.a. fyrir Norðurl. v. sé kostnaðurinn um það bil helmingi hærri en nemur styrknum. Ég spyr hvort ekki sé vilji hjá hæstv. núv. ríkisstjórn að hækka þann styrk frá því sem hann er nú til þess að koma enn betur til móts við þennan kostnað því vissulega er þetta einhver mesti vandi sem foreldrar úti á landi standa frammi fyrir, sá mikli kostnaður sem fylgir því að eiga unglinga eða ungt fólk í námi. Flestir vilja styðja börn sín og það er spurning hvort ekki þyrfti að koma þarna betur á móti eins og hæstv. menntmrh. kom inn á sem aðgerð í því að draga úr þeim mismun sem í því felst að búa í hinum ýmsu landshlutum. Ég held að fátt mundi koma fólki betur en styrkur til námsmanna.

Fróðlegt væri að fá það upplýst og vil ég því spyrja hæstv. menntmrh.: Hefur verið gerð könnun á því hvaða hópur framhaldsskólanema, og þá er ég að tala um nemendur í starfsnámi, sem nýta ekki rétt sinn til námslána eða af hvaða ástæðu það er? Ég get svo sem gefið mér að mörgum ói við að taka námslán í mörg ár og ekki síst þeir sem sjá fram á lág laun en ég spyr: Er til einhver greining á því hvaða nemendur það eru sem eiga rétt til lána en nýta hann ekki eða eru það þeir sem betur búa og fá mikla og góða styrki frá foreldrum sínum? Það er allalgengt að þeir sem hafa ráð á hafi keypt íbúðir á höfuðborgarsvæðinu til þess að styðja börn sín sem eru í framhaldsnámi og styrkur foreldra getur verið ýmiss konar en það væri fróðlegt að fá að heyra hvort einhver greining er til á þessu.

Að lokum vil ég taka undir efni þessa frv. og mun gera mitt til þess að það nái fram að ganga. Ég vil jafnframt taka undir þá gagnrýni sem kom fram í máli hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur að auðvitað er ákaflega sérkennilegt þegar mál nákvæmlega sama efnis liggur fyrir að það skuli þá ekki tekið upp í nefndinni að ræða það mál og gera á því nauðsynlegar orðalagsbreytingar. Það er alger óþarfi að nálgast málin svona.

Kosningar eru fram undan og menn þurfa kannski að fara að vekja athygli á ýmsum góðum verkum sínum og því sem þeir eru að gera og kannski er það skýring á þessu en séð út frá starfsemi þingsins er alger óþarfi að ganga svona fram og ætti auðvitað að vera saman hvaðan gott kemur.