Ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 21:13:22 (2087)

1998-12-10 21:13:22# 123. lþ. 37.12 fundur 336. mál: #A ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði# (réttur til styrkja) frv. 143/1998, menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[21:13]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þann stuðning sem þetta mál hefur fengið og bjóst ég raunar ekki við öðru því að eins og kom fram í máli mínu var mér að sjálfsögðu kunnugt um það að hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson höfðu flutt frv. sem lýtur að sama markmiði. Það hefur oft gerst, herra forseti, á hinu háa Alþingi að menn hafa flutt frv. sem lúta að sama markmiði. Síðan hafa nefndir komist að niðurstöðu sem sameinar þau sjónarmið sem að baki búa við framsetninguna og ég held að það eigi ekki að vefjast fyrir mönnum í þessu tilliti.

Það sem fyrir mér vakti í málinu var í fyrsta lagi að gefa út þá skýrslu sem ég hef gefið út. Margsinnis hefur verið beðið um að svarað yrði af hálfu menntmrn. þeirri ályktun sem var samykkt snemma árs 1995 um það að kannað yrði hvort námsfólk er stundar nám fjarri heimabyggð verði af réttindum og félagslegri þjónustu ef það heldur lögheimili í heimabyggð og Lánasjóður ísl. námsmanna taki sérstaklega tillit til slíkra aðstæðna. Þessi skýrsla svarar öllum þeim spurningum. Í henni er hins vegar ekki farið ofan í einstakar námsgreinar og ekki greint með þeim hætti að ég geti svarað hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur og sagt hvaða námsgreinar það eru sem helst kalla á það að menn hafi tekið lán úr Lánasjóði ísl. námsmanna en það hefur m.a. komið til álita hjá mönnum hve langt nám þeir ættu í vændum því að það er þak á þeim árafjölda sem menn geta verið lánþegar hjá Lánasjóði ísl. námsmanna.

Þetta er það sem ég held að hafi ráðið mestu hjá einstaklingum og þeir hafi verið að velta því fyrir sér hvort það borgaði sig fyrir þá að taka lánin hjá lánasjóðnum vegna þess að það útilokaði þá síðar er þeir væru upp á efri skólastig að vera lánþegar hjá sjóðnum. Upp hafa komið tilvik eins og hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir veit sem kalla á að menn velti fyrir sér hvaða úrræði væru best til þess að taka á þessum málum og þetta frv. byggist á þeim athugunum sem gerðar hafa verið á vegum menntmrn. og má segja að við stefnum að sama markmiði, hv. þm. og ráðuneytið og það komi fram í því frv. sem hér liggur fyrir.

Herra forseti. Ég held að fordæmi hljóti að vera fyrir því sem menn geta vísað til ef þess þarf í hv. menntmn. til að greiða úr formsatriðum varðandi afgreiðslu á málinu með hliðsjón af því að frv. um svipað efni liggur hér fyrir. Það ætti ekki að tefja fyrir því að við komumst að niðurstöðu um málið og getum afgreitt það. Þetta frv. er ekki flutt til þess að storka hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur. Hins vegar taldi ég skynsamlegast að hafa þennan háttinn á til að formlega væri staðið að því eins og mér ber að standa að málum þegar ég geri tillögur sem menntmrh. um þætti sem þessa.