Afgreiðsla heilbr.- og trn. á frumvarpi um gagnagrunn

Föstudaginn 11. desember 1998, kl. 14:08:33 (2118)

1998-12-11 14:08:33# 123. lþ. 38.94 fundur 159#B afgreiðsla heilbr.- og trn. á frumvarpi um gagnagrunn# (um fundarstjórn), SvG
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 123. lþ.

[14:08]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Þá fer ég fram á að hæstv. forseti hlutist til um að fundi heilbr.- og trn. verði þegar í stað frestað vegna þess að bersýnilegt er að þetta rekst á. Það er náttúrlega engin framkoma við þingið að halda áfram fundi í þessari nefnd eins og verið er að gera þegar auk þess er ljóst að ekkert liggur á að taka málið út úr nefndinni af því að það kemur ekki til 3. umr. fyrr en einhvern tíma eftir helgina. Þetta er því bara vitleysa, herra forseti, ef ég leyfi mér að nota það orð, að vera að knýja málið fram á þennan hátt, nema menn vilji endilega gera þessu máli, gagnagrunnsmáli, óleik. Ef það er stefna ríkisstjórnarinnar að gera þessu gagnagrunnsmáli bölvun þá eru aðferðirnar sem eru notaðar núna upplagðar í því skyni.

Ég skora á hæstv. forseta að beita sér fyrir því, og hann hefur örugglega til þess fullan stuðning okkar flestra hér, að fundinum í heilbr.- og trn. verði nú þegar frestað og málinu ekki lokið þar fyrr en um helgina á nefndafundadögum, eins og hjá öðrum nefndum sem þá ætla sér að sinna sínum verkum. Það er fjarstæða að tæta málið út úr nefndinni eins og verið er að reyna að gera núna.