Fjárlög 1999

Föstudaginn 11. desember 1998, kl. 18:52:16 (2155)

1998-12-11 18:52:16# 123. lþ. 38.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, StB
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 123. lþ.

[18:52]

Sturla Böðvarsson:

Hæstv. forseti. Staða efnahagsmála og um leið ríkisfjármála er traustari en hún hefur verið um langan tíma. Markmiðum stjórnarflokkanna, sem sett voru við upphaf stjórnarsamstarfsins, hefur verið náð jafnt og þétt. Við þessa umræðu er farið yfir stöðuna í ríkisfjármálum eftir að fjárln. hefur unnið að skoðun frv. og lagt fram brtt. sem eru hér til umræðu.

Það er viðurkennt að staða ríkisfjármálanna hefur mikil og oft afgerandi áhrif á efnahagslífið og þá um leið atvinnuvegina. Árangur á sviði ríkisfjármálanna þar sem markmiðið er að skila hallalausum fjárlögum á rekstrargrunni skiptir þar miklu máli.

Mikilvægasti árangur okkar við efnahagsstjórn landsins er annars vegar að skila hallalausum fjárlögum á rekstrargrunni og hins vegar að halda niðri verðbólgunni. Það er vissulega ástæða til að vekja athygli á þessari staðreynd. Það er stöðugleiki og lág verðbólga þrátt fyrir öflugan hagvöxt og kröftugan vöxt innlendrar eftirspurnar, sem jafnan hefur verið ávísun á verðbólgu.

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að vitna til þess sem segir í haustskýrslu Seðlabankans um þróun og horfur í peningamálum. Þar segir:

,,Núverandi uppsveifla hér á landi er hin fyrsta í nærri fimm áratugi þar sem verðbólga er svipuð eða minni en í viðskiptalöndum.``

Þessi lýsing Seðlabankans er mikilvæg einkunnargjöf og hvatning til þess að stýra málum á þann veg að stöðugleikinn haldist og hún er staðfesting á því að stjórn efnahagsmálanna er traust.

Ekki liggur fyrir endurskoðuð þjóðhagsspá en þess er að vænta að fyrir 3. umr. fjárlaga muni liggja fyrir endanlegt mat á horfum í efnahags- og ríkisfjármálum og ný áætlun um tekjur ríkissjóðs.

Samkvæmt forsendum fjárlagafrv. var gert ráð fyrir 4,6% hagvexti á næsta ári, þrátt fyrir minni framkvæmdir við stóriðju, sem sýnir að mikið afl er í atvinnustarfseminni í landinu, sem mun síðar skila auknum þjóðartekjum og tekjum í ríkissjóð af arðbærri starfsemi og auknum veltutengdum tekjum. Fjárlög þessa árs voru afgreidd með nokkrum afgangi á greiðslugrunni og gert er ráð fyrir að á þessu og næsta ári verði hægt að lækka skuldir ríkissjóðs um 30 milljarða, m.a. vegna sölu ríkiseigna.

Af hálfu meiri hluta fjárln. er lögð mikil og rík áhersla á að skila fjárlögum með afgangi og markmiði um lækkun skulda verði náð. Þannig stuðlum við að því að ríkisfjármálin greiði fyrir því að áform í peningamálum nái fram að ganga. Þróun launamála hefur valdið verulega auknum útgjöldum ríkisins og setur það nokkurt mark á ríkisútgjöldin eins og vænta mátti.

Í brtt. meiri hluta fjárln. kemur fram skýr stefna sem felst í aðhaldi en um leið viðurkenningu á þörf einstakra stofnana fyrir aukin framlög til þess að sinna mikilvægri opinberri þjónustu. Eins og oft áður barst fjárln. mikið af erindum og athugasemdum frá stofnunum og ráðuneytum. Ekki getur nefndin nú fremur en áður orðið við öllum óskum um hækkun eða um nýja starfsemi því tekjur ríkissjóðs eru takmarkaðar.

Til 3. umr. eru skilin eftir til nánari yfirferðar og skoðunar nokkuð stórir málaflokkar. Má þar nefna málefni fatlaðra, rekstur framhaldsskólanna, útgjöld vegna tryggingabóta, rekstur sjúkrahúsanna og sérstakar byggðaaðgerðir, sem tengjast byggðaáætlun sem forsætisráðherra mælti hér fyrir og er til meðferðar í þinginu.

Fulltrúar fjölmargra sveitarfélaga hafa átt fund með fjárln. eins og verið hefur.

Erindi frá sveitarfélögum varða einkum framkvæmdir við hafnir, sem eru lífæðar byggðanna, sjúkrastofnanir, söfn, endurbyggingu gamalla húsa, menningarstofnanir og framhaldsskóla svo nokkuð sé nefnt.

Eins og fram hefur komið að undanförnu hefur hagur sveitarfélaganna verið að versna á sama tíma og okkur hefur tekist að styrkja stöðu ríkissjóðs. Þessar staðreyndir valda áhyggjum vegna þess að hin minni sveitarfélög hafa ekki mikla möguleika til að bregðast við versnandi afkomu á sama hátt og höfuðborgin sem hefur svigrúm til hækkunar skatta, eins og þekkt er, og hefur yfir að ráða þeirri auðlind ef svo mætti segja sem felst í veitustofnunum, sem gefa mikinn arð þrátt fyrir lágt orkuverð.

Vegna samstarfssáttmála sem er í gildi milli ríkisins og sveitarfélaganna er nauðsynlegt að fara yfir þá stöðu og koma einhvern veginn til móts við sveitarfélögin með skipulegum og skilgreindum hætti, svo sem með tilflutningi verkefna eða með því að efla jöfnunarsjóðinn. Þetta er verkefni sem þarfnast sérstakrar skoðunar en tekur tíma.

Í stjórnarsáttmálanum er lögð áhersla á að ná jöfnuði í ríkisfjármálum, ná fram kerfisbreytingum með ráðdeild og að treysta stoðir velferðarkerfisins. Einnig er gert ráð fyrir því í þessum fyrrnefnda stjórnarsáttmála að teknar verði upp viðræður við sveitarfélögin um alvarlegan hallarekstur þeirra og leiðir til að bregðast við þeim vanda. Af eðlilegum ástæðum er ekki tekið á þessu í fjárlögum en gera verður ráð fyrir því að hæstv. félagsmálaráðherra taki á þessu máli og gangi til viðræðna við sveitarfélögin um stöðu þeirra og ekki síður ábyrgð þeirra á framvindu efnahagsmálanna, svo sem aðild að þeirri kjarasátt sem náðist og var innsigluð með lækkun skatta. Það er mikilvægt og þolir ekki frekari drátt. Það dugir ekki að líta fram hjá útsvarshækkun Reykjavíkurborgar en láta vanda annarra sveitarfélaga sig engu varða.

Staða sveitarfélaganna hefur mikilvæg áhrif á framvindu efnahagsmála með sama hætti og ríkisreksturinn og því er mikilvægt að sátt ríki milli ríkisins og sveitarfélaganna svo tryggja megi stöðugleika og hagkvæma þróun í samfélaginu.

Þær brtt. sem hér hefur verið mælt fyrir af hv. formanni fjárln. nema um 1.750 millj. kr. Þar af vegna áhrifa kjarasamninga um 500 millj. kr. en samtals um 1.200 millj. kr. vegna aukinna launaþátta með einu eða öðru móti. Útgjöld vegna launa eru því stærsti hlutinn af þeim breytingum sem gerðar eru tillögur um.

Ég vil gera hér grein fyrir efni nokkurra mála sem fjárln. hefur tekið til meðferðar og meiri hluti nefndarinnar gerir tillögur um.

Fyrst vil ég nefna framlög til Háskóla Íslands. Þar er um að ræða almenna hækkun sem hugsuð er sem fyrsti hluti breytinga vegna samnings um framlög til skólans sem byggir á reiknilíkani sem nýr samningur mun væntanlega byggjast á. Vissulega eru bundnar vonir við að skýrt skilgreindur samningur við Háskóla Íslands verði til að auðvelda stjórnendum það mikilvæga verkefni sem Háskóla Íslands er ætlað. Þessi hækkun er vísbending um vilja meiri hluta fjárln. til að taka tillit til þessa samnings sem byggður er á sérstöku reiknilíkani eins og fyrr er nefnt, en sá samningur er í burðarliðnum.

[19:00]

Þá er 14 millj. kr. framlag til að koma til móts við óskir um fjármuni til að bæta lestraraðstöðu stúdenta eins og fram hefur komið í þessari umræðu. Framlagið til Háskóla Íslands er þannig að stjórnendur HÍ geti tekið af skarið um það hvernig úr málum verði leyst. Annaðhvort með samningi við Landsbókasafnið um bætta aðstöðu í Þjóðarbókhlöðunni eða með öðrum hætti sem talinn er hagstæður fyrir nemendur og Háskóla Íslands.

Óskir um fjárveitingar vegna fjarkennslu símenntunar og endurmenntunar hafa verið fjölmargar. Fram undan virðist vera mikil breyting eða jafnvel bylting á sviði fjarkennslu með margmiðlun og leggja bæði skólastofnanir og atvinnuþróunarfélög mikla áherslu á að fjármunir verði settir í öflugt net fjarkennslu í landinu. Veittar eru 12 millj. til samstarfsverkefnis á vegum Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri og Kennaraháskóla Íslands. Einnig eru veittar 7 millj. til endur- og símenntunarstöðva á hverju eftirfarandi svæða: Reykjanesi, Vesturlandi, á Sauðárkróki fyrir Norðurland vestra og á Suðurlandi.

Það er mat meiri hluta fjárln. að eðlilegt sé að veittir verði fjármunir til þess að koma þeirri starfsemi á fót, ekki síst á landsbyggðinni. Til að tryggja framvinduna er gert ráð fyrir því að menntmrn. geri samninga við aðila þar sem viðfangsefnin eru skilgreind. Það verður að tryggja að sem mest og best nýting verði á þeim fjármunum sem lagðir eru fram af hálfu ríkisins til að efla fjarkennslu í landinu.

Jöfnun námskostnaðar er mikilvægt byggðamál. Gerð er tillaga um hækkun á framlögum til að koma til móts við þá sem sækja nám fjarri heimabyggð og tengist það breytingum á lögum um jöfnun námskostnaðar sem liggur fyrir þinginu.

Endurbótasjóður menningarbygginga hefur mikilvægu hlutverki að gegna. Meðal viðfangsefna sem hann styrkir er uppbygging byggðasafna í landinu. Liðurinn er hækkaður til þess að menntmrh. verði gert kleift að undirbúa samninga við sveitarfélög eða héraðsnefndir vegna bygginga á vegum byggðasafna. Mjög víða er myndarlega staðið að uppbyggingu byggðasafna, má þar nefna safnið á Skógum, í Görðum á Akranesi, sjóminjasöfnin á Eskifirði og í Hafnarfirði og safnið í Glaumbæ í Skagafirði svo fáein dæmi séu nefnd.

Enn er margt ógert á þessum vettvangi. Byggðasöfnin eru mikilvægar menningarstofnanir sem varðveita og sýna menningararf okkar en eru jafnframt hluti af þeirri nauðsynlegu starfsemi sem fylgir uppbyggingu ferðaþjónustu í landinu.

Verulegir fjármunir eru lagðir til undirbúnings þess að minnast landafunda. Meðal verkefna sem hafa verið í undirbúningi eru framkvæmdir á Eiríksstöðum í Haukadal, á fæðingarstað Leifs Eiríkssonar. Í brtt. meiri hluta fjárln. er gert ráð fyrir að veita 20 millj. til þessa verkefnis á næsta ári og vinna eftir áætlun sem liggur fyrir þannig að á næsta ári ljúki þeim framkvæmdum. Framkvæmdaundirbúningur á Eiríksstöðum er með miklum ágætum og eru fornleifarannsóknir þar mikilvægt innlegg í rannsóknir á sögu okkar Íslendinga.

Húsafriðunarsjóður veitir styrki til endurgerða og viðgerða á friðuðum húsum og kirkjum. Þeir fjármunir sem sjóðurinn hefur haft til ráðstöfunar koma úr ríkissjóði og frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Með hækkun á framlagi til sjóðsins um 10 millj. kr. mun sjóðnum verða gert kleift að veita styrki og bjarga frá eyðileggingu menningararfleifð okkar sem er að finna í vel gerðum byggingum, stórum og smáum, sem takmarkaður sómi hefur verið sýndur en hefur notið raunar vaxandi áhuga og athygli.

Samningar um landbúnaðarframleiðsluna eru í föstum skorðum og því er ekki um að ræða verulegar breytingar á framlögum vegna landbúnaðarmála. Einungis minni háttar viðbót á sviði skógræktar, landgræðslu til Rannsóknarstofnunar landbúnaðarins og bændaskólanna sem gegna mikilvægu hlutverki, ekki einungis fyrir landbúnaðinn heldur fyrir menntakerfið í landinu.

Loðdýraræktin hefur átt undir högg að sækja en hefur heldur rétt úr kútnum að undanförnu. Þykir nauðsynlegt að veita þessari grein nokkurn styrk, með fjárveitingu til niðurgreiðslu á loðdýrafóðri frá fóðurstöðvum og til uppbyggingar og hagræðingar í fóðurstöðvum. Er um að ræða 45 millj. kr. í niðurgreiðslu og 8 millj. til fóðurstöðvanna sem framleiða loðdýrafóður.

Í landinu er þekking á loðdýrarækt en dýrkeypt reynsla eftir mikil áföll í greininni á 8. og 9. áratugnum. Því er nauðsynlegt að fara varlega og hyggja vel að leiðum til þess að endurreisa loðdýraræktina. Mikilvægt er að veita loðdýraræktinni stuðning en tryggja verður að sá stuðningur verði þannig nýttur að loðdýraræktin verði ekki byggð upp til framtíðar á stuðningi úr ríkissjóði. Það er talið að aðstæður hér séu hagstæðar greininni vegna aðgangs að fóðri úr fiskmeti.

Hafrannsóknastofnun gegnir mikilvægu hlutverki. Fjárveitingar til hennar hafa verið knappar líkt og til fjölmargra annarra stofnana á vegum ríkisins. Nú þykir nauðsynlegt að hækka fjárveitingu til hennar um 45 millj. kr. til þess m.a. að kosta rannsóknir á áhrifum veiðarfæra á vistkerfi hafsbotnsins. Er hér um að ræða mikilvæga ákvörðun sem mun væntanlega treysta rannsóknir sem þessi mikilvægasta rannsóknastofnun okkar verður að geta sinnt.

Það er mjög alvarleg staðreynd að fjárln. hefur þurft að taka afstöðu til aukinna fjármuna til fjölgunar meðferðarúrræða vegna ungra vímuefnaneytenda. Gerð er tillaga um 30 millj. kr. hækkun til Barnaverndarstofu og sérstök framlög til meðferðarheimilisins Krossgatna og Virkisins, sem hafa unnið að meðferð ungra fíkniefnaneytenda og eiga virðingu okkar skilið fyrir það verkefni. Hættan sem fylgir auknu framboði vímuefna er mikil og er nauðsynlegt að leita allra leiða til að bregðast við með viðeigandi hætti og leggja til þess fjármuni svo sem hér er lagt til að gera.

Orkukostnaður á svokölluðum köldum svæðum er talin ein af ástæðum þess að fólk flytur af landsbyggðinni. Víða hefur verið komið upp hitaveitum sem leggja íbúunum til orku á hagstæðu verði. Ekki hefur tekist að dreifa raforku um landið þannig að raforkan standist samanburð við það sem hagstæðast gerist um verð á hitaveitum í landinu. Ríkissjóður hefur því greitt raforkuverð til húshitunar niður og er um að ræða umtalsverða upphæð en þrátt fyrir það er húshitunarkostnaður hár þar sem raforkan er nýtt og talið eftir miklu að slægjast að geta nýtt jarðvarma á hagkvæman hátt.

Í brtt. meiri hluta fjárln. er að finna tillögu um 45 millj. kr. til þess að veita styrki til hitaveitna sem leysa af hólmi hitun með raforku sem er niðurgreidd. Hugmyndin er sú að leggja hitaveitur þar sem það er talið hagkvæmt og um leið spara ríkissjóði niðurgreiðslurnar til framtíðar. Þessi fjárveiting, sem er hugsuð til lækkunar á stofnkostnaði hitaveitna, er mjög mikilvæg og mun geta leitt til þess að komið verði upp hitaveitum til mikilla hagsbóta fyrir fjölmarga íbúa landsins.

Í tillögum meiri hluta fjárln. er gerð tillaga um rúmlega 100 millj. til framkvæmda við Reykjavíkurflugvöll og er gert ráð fyrir að hefja fyrsta áfanga við endurbyggingu hans. Flugsamgöngur eru mikilvægar og gegnir flugvöllurinn mjög mikilvægu hlutverki í samgöngukerfi landsins.

Málefni fatlaðra hafa verið til sérstakrar skoðunar hjá nefnd á vegum félmrn. Nefndin hefur skilað áliti og gert tillögur sem verða til meðferðar á næstunni á vegum ráðherra. Samkvæmt úttekt nefndarinnar er þörfin mest fyrir sambýli fyrir fatlaða á Reykjanesi og í Reykjavík. Er þess að vænta að Framkvæmdasjóður fatlaðra vinni í samræmi við þær tillögur sem fyrir liggja. Mun fjárln. gera athugun á stöðu hans gagnvart þessu verkefni fyrir 3. umr. fjárlaga.

Bætur elli- og örorkulífeyrisþega hafa verið til sérstakrar athugunar á vegum ríkisstjórnarinnar. Hefur fjmrh. lýst því yfir að unnið sé að tillögum sem muni koma til afgreiðslu við 3. umr. fjárlaga. Er því ekki meira um það að segja á þessu stigi.

Á það hefur verið bent að helstu hættumerki efnahagslífsins felist í viðskiptahalla og takmörkuðum sparnaði þjóðarinnar. Undir það skal tekið. Engu að síður verður að benda á þá staðreynd að eftir mörg samdráttarár og þrengingar atvinnufyrirtækja var orðin mikil þörf fyrir endurnýjun margs konar atvinnutækja auk þess sem margmiðlunarbyltingin kostar sitt. Fjárfesting í tækjum og búnaði mun væntanlega nýtast okkur í bættum afköstum og aukinni framleiðni og hagnaði fyrirtækjanna og fleiri atvinnutækifærum í landinu. Þannig eru einnig bjartar hliðar á þeirri stöðu sem tengist viðskiptahalla.

Einkavæðing í bankakerfinu mun tryggja ríkissjóði verulegar tekjur af eignasölu. Sú einkavæðing er einnig þáttur í því að almenningur leggur sparnað sinn í hlutafjárkaup og þannig er og verður hvati til sparnaðar um leið og fólk kaupir hlutabréf í von um hagstæða fjárfestingu.

En gangverk efnahagslífsins er flókið samspil áhrifa frá atvinnulífinu, fjármálastofnunum og ríkisrekstrinum. Það er því mjög mikilvægt að stjórn ríkisfjármála taki mið af stöðu og horfum í efnahagsumhverfinu og í ríkisrekstrinum leitist menn við að fara hinar hagkvæmustu leiðir.

Miklum árangri hefur verið náð í margs konar úrbótum og breytingum í ríkisrekstrinum. Meðal þess sem vinna þarf að er að skilgreina sem best þau verkefni sem unnin eru á vegum ríkisins eða með styrk frá ríkinu. Það getur ekki verið ásættanlegt að veittir séu fjármunir til starfsemi eða hafin starfsemi í skjóli ríkisins án þess að það sé vandlega skilgreint í samningi milli aðila. Fjárln. hefur bent á þetta og vill leggja sitt af mörkum svo árangur verði hvað þetta varðar. Gildir þetta m.a. um sjúkrastofnanir, stórar og smáar einnig, og ekki síður ríkisstofnanir svo sem stóru sjúkrahúsin. Það er mat mitt að með vel skilgreindum þjónustusamningum, breyttu formi á fjármögnun heilbrigðisstofnana og með einkafjármögnun megi bæta þjónustu og gera hana ódýrari. Að því verki þarf að vinna á næstu árum.

Virðulegi forseti. Óhætt er að fullyrða að okkur tekst hægt og sígandi að bæta búsetuskilyrðin á Íslandi. Það er hlutverk okkar á Alþingi að ná því marki sem það verður gert með löggjöf. Það er von mín að fjárlög ársins 1999 marki ákveðið framhald þeirra framfara á mörgum sviðum sem við höfum staðið fyrir í góðu samstarfi hér á Alþingi og í ríkisstjórn. Það er mjög horft til þess sem við ætlum að gera fyrir aldamót. Ég vil hvetja til þess að við undirbúum vel komu nýrrar aldar án þess að við röskum efnahag okkar með óraunhæfum væntingum.

Við viljum öfluga byggð við aldamót. Til þess að svo megi verða þurfum við að gæta að fjármálum ríkisins og minnast þess að við þurfum að skila landinu okkar í vexti til komandi kynslóða.

Að lokum, herra forseti, vil ég þakka samnefndarmönnum mínum í fjárln. fyrir mjög gott samstarf, bæði stjórnarliðum og stjórnarandstöðu og því starfsfólki öllu sem með okkur hefur unnið að því mikilvæga verkefni að fara yfir fjárlagafrv. og koma brtt. fyrir Alþingi.