Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Miðvikudaginn 16. desember 1998, kl. 14:30:16 (2416)

1998-12-16 14:30:16# 123. lþ. 43.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 123. lþ.

[14:30]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst mjög jákvætt að heyra frá hæstv. ráðherra að frá því verði tryggilega gengið í starfsleyfi að haft verði eðlilegt eftirlit með fjárhag og bókhaldi sérleyfishafa og frá því verði gengið að íslenska þjóðin fái eðlilegan og sanngjarnan arð. En ég spyr hæstv. ráðherra: Er hæstv. ráðherrann tilbúinn til að beita sér fyrir því að heilbr.- og trn. fái að fara yfir þá þætti, sem ráðherrann nefndi, hvernig frá þessu máli verði gengið, í fyrsta lagi varðandi arðinn, í annan stað varðandi eftirlit áður en frá þessu máli verður gengið?

Mér finnast það mjög eðlileg og sanngjörn vinnubrögð miðað við það sem við höfum gengið í gegnum að heilbr.- og trn. fái tækifæri til þess, hvenær sem það verður gert, að ráðherra gefi henni þann möguleika að fara í gegnum þessi mikilvægu atriði.

Síðan vil ég segja það, herra forseti, að mér finnst smekklaust af hæstv. ráðherra að draga inn einstaka sjúkdóma og tala um ef við gætum læknað gigtarsjúkdóma o.s.frv. að þá væri tilgangnum náð. Hæstv. ráðherra getur ekki leyft sér að stilla málinu með þeim hætti að við sem höfum gagnrýnt þetta frv. séum næstum því á móti því að hægt sé að lækna svona sjúkdóma eða að vísindin stuðli að einhverri framþróun í þessum efnum.

Við erum að benda á betri leiðir, á aðrar leiðir sem sátt getur náðst um. Það er til valkostur, það liggur fyrir frv. sem fékkst ekki einu sinni útrætt þar sem við hefðum getað náð þessu alveg eins og hér er lagt til ef það er á annað borð hægt.

Síðan vil ég nefna það af því að hæstv. ráðherra nefndi hér sérstaklega gigtarlækningarnar: Hvernig eigum við að ná einhverjum árangri í því þegar gigtarlæknar leggjast gegn þeirri aðferð sem á að fara á þessari leið og vilja og hafa óskað, eins og aðrir læknar, eftir samvinnu við heilbrrn., eftir samvinnu við hæstv. heilbrrh. hvaða leið á að fara í þessu efni? Það er ekki smekklegt, hæstv. ráðherra, að stilla málinu fram eins sem hæstv. ráðherra leyfir sér að gera.