Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Miðvikudaginn 16. desember 1998, kl. 14:34:05 (2418)

1998-12-16 14:34:05# 123. lþ. 43.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 123. lþ.

[14:34]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Svörin voru alls ekki skýr. Ég spurði hvort þetta yrði kynnt í heilbr.- og trn. þannig að hún fengi eitthvað um málið að segja áður en það væri frágengið. En hæstv. ráðherra treystir sér ekki lengra en að segja það að málið yrði kynnt í heilbr.- og trn. Að sjálfsögðu verður það kynnt heilbr.- og trn. eins og öðrum þegar það er frágengið. En þetta er spurning um samráð við heilbr.- og trn. og það er það sem er svolítill munur á, herra forseti, eða hvort nefndinni verði kynnt það eftir á þegar búið er að ganga frá öllum málunum. Það er það sem ég var að spyrja hæstv. ráðherra um og hefði talið æskilegt að fá það fram í umræðunni áður en gengið verður frá málinu.

Varðandi það sem ég var að segja um smekkleysi, að vera að ræða í stuttu andsvari um möguleikana á því hvað þetta frv. gæti gert þá var ég ekkert að spyrja um það. Auðvitað getur þetta frv. opnað ákveðna möguleika, við erum öll meðvituð um það, alveg eins og dreifðir gagnagrunnar geta líka gert. En mér fannst hæstv. ráðherra stilla málinu upp með þeim hætti að við sem tölum gegn þeirri leið sem á að fara séum einhverjir andstæðingar í framþróun í vísindum og lækningum. Málið er bara ekki þannig vaxið og það var það sem ég var að halda til haga að mér fannst ráðherrann hæstv. stilla málinu upp fremur ósmekklega.

Ég hefði frekar viljað að hæstv. ráðherrann hefði komið inn á það sem ég var að ræða í máli mínu, t.d. áhyggjur sem ég hef og fleiri hv. þingmenn af persónuverndinni og hvernig réttur er ekkert tryggður og hvernig á að vernda rétt þeirra sem geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér, eins og sjúklingar, aldraðir, þroskaheftir og fleiri sem hér var nefnt. Ég hefði frekar viljað heyra ráðherrann nefna það.

Hitt getum við verið alveg sammála um, þó okkur greini kannski á um leiðir, að framþróun í vísindum verður að eiga sér stað. Við teljum bara að önnur heppilegri leið sé til.

En, hæstv. forseti, mér þætti vænt um það ef hæstv. ráðherrann svaraði svolítið skýrar með heilbr.- og trn. (Heilbrrh.: Ég er búin með andsvörin.)