Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Miðvikudaginn 16. desember 1998, kl. 16:31:38 (2434)

1998-12-16 16:31:38# 123. lþ. 43.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, Frsm. meiri hluta SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 123. lþ.

[16:31]

Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Málið er nú ekki svona svart eins og hefur verið dregið upp, alls ekki. Deilur eru um málið eins og allir hafa séð sem hafa fylgst með því. Hér var dregið fram að vísindamenn og læknar sem hefðu engra hagsmuna að gæta væru allir andsnúnir málinu. Það er nú ekki rétt. Ég vil minna hv. þm. Ögmund Jónasson, sem er áheyrnarfulltrúi í heilbrn., t.d. á umsögn 15 lækna og prófessora við læknadeild Háskóla Íslands. Læknadeild Háskóla Íslands. Mjög jákvæðir. (ÖJ: Hvað segir læknadeildin sjálf? Hvað segir siðaráðið læknadeildarinnar?) Þeir telja þetta vera nýtt rannsóknartæki sem opni mikla möguleika og Rannsóknarráð Íslands var mjög jákvætt í umsögn sinni, talaði um nýtt rannsóknartæki sem opnaði mikla möguleika. (ÖJ: Vísindaráðið? Hverjir? Hverjir?) Rannsóknarráð Íslands, virðulegi þingmaður. (ÖJ: Þeir hafa lagst gegn frv.) Rannsóknarráð Íslands ... (ÖJ: Þeir hafa lagst gegn frv.)

(Forseti (GÁS): Það er hv. 4. þm. Reykjaness sem hefur orðið.)

Takk fyrir, virðulegur forseti. Hins vegar er það rétt að Rannís hélt fund þar sem þeir leyfa sér að setja á prent að aðgengi vísindamanna verði þrengt. Það er alrangt og þetta veit 1. minni hluti í heilbr.- og trn., hv. þm. Össur Skarphéðinsson og hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir. Þetta vita þau. (ÖJ: Þetta sýnir að frv. þarf miklu meiri umræðu.) Þau lögðu einmitt þessa leið til sem við samþykktum til að tryggja að aðgengi vísindamanna okkar yrði betra vegna þess að þetta stenst frekar EES-samninginn. Þetta er heili galdurinn.