Landhelgisgæsla Íslands

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 12:35:32 (2495)

1998-12-17 12:35:32# 123. lþ. 44.18 fundur 233. mál: #A Landhelgisgæsla Íslands# (útboð) frv. 142/1998, GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[12:35]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Það sem sagt hefur verið um EES og að menn séu ekki sammála því og hafi verið á móti inngöngu þar, þá veit ég ekki betur en verkalýðsforustan hér á landi og vinnuveitendur hafi fallist í faðma og leyst mál sem líklega á annan áratug hefur staðið þeirra í milli, þ.e. um vinnutímalengd. Það kom tilskipun frá Brussel um það hvernig með ætti að fara og var það nokkurs konar miðjumál milli þeirrar deilu sem áður hafði staðið út undan og þá féllust allir í faðma og töldu að þetta væri hið besta mál að fá þessa tilskipun og þar með væri einn stór liður í deilu milli vinnuveitenda og launafólks leystur þannig að ekki er þetta alvont sem kemur erlendis frá fyrir alla.

Ég er auðvitað fylgjandi því að þetta varðskip sé smíðað hér heima. Á það ætla ég ekki að draga neina dul. En mér finnst hins vegar að umhugsunarefni sé þegar menn vilja fara í kringum lög EES eða þær reglugerðir sem stangast á við það sem við viljum og leitað sé þeirra leiða sem tryggastar eru til að við getum rekið okkar mál þannig að ekki komi til einhverra bakþanka í því sambandi, þannig að við getum ótrauðir gengið í þetta verk með þessum hætti. En ég tel það hins vegar mjög mikið umhugsunarefni hvort ekki sé rétt að reyna að útvíkka starfsemi Landhelgisgæslunnar á þann hátt sem ég gat um áðan, þ.e. að hluti af starfsemi Landhelgisgæslunnar og efling hennar um leið væri óbeint eða beint tengt þeirri starfsemi sem við erum aðilar að, þ.e. NATO.