Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 11:55:30 (2573)

1998-12-18 11:55:30# 123. lþ. 45.3 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, 344. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (grásleppuveiðar) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[11:55]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. 5. þm. Suðurl. að ráðuneytið átti í viðræðum við forustumenn smábátasjómanna um frekari aðlögun, sérstaklega sóknardagaflotans, að þeirri niðurstöðu sem er í lögunum. Dómur Hæstaréttar breytti hins vegar þessari aðstöðu vegna þess að veiðikerfi þeirra var opnað.

Nú hefur hv. 5. þm. Suðurl. komið með mjög harða gagnrýni á tillögu ríkisstjórnarinnar og lýst því yfir að samfylkingin sé afskaplega ósátt með þær tillögur. Er þá ekki hægt að ætlast til þess, fyrst samfylkingin er svona ósátt, að hún komi fram með einhverjar tillögur sjálf og segi hvað hún vilji gera?

Það er óskaplega ódýrt að segja: Við erum tilbúin að stofna enn eina nefndina til að fara að hugsa. Nefndir í þinginu eru til þess að fjalla um þingmál sem ríkisstjórn eða þingmenn eða stjórnmálaflokkar leggja fyrir þingið til umfjöllunar. Heill stjórnmálaflokkur hlýtur að teljast fær um um að leggja fram tillögur við dómi eins og þessum. Það er prófsteinn á það hvort menn geta á annað borð verið í pólitík.

Ég hlýt að lýsa eftir þessum tillögum fyrst samfylkingin er svona ósátt. Hverjar eru þær?