Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 18:41:18 (2637)

1998-12-18 18:41:18# 123. lþ. 45.3 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, 344. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (grásleppuveiðar) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[18:41]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. 11. þm. Reykn. fyrir að staðfesta það sem ég sagði í upphafsræðu minni í dag, að mér sýndist að fulltrúar jafnaðarmanna ætluðu að nota dóm Hæstaréttar til að rífa umfjöllun um sjávarútvegsmálin úr þeim ágæta sáttafarvegi sem sú umræða var komin í eftir að Alþingi kaus nefnd allra flokka til að fjalla um þau mál. Hv. þm. staðfesti það hér að hann vildi ekki með neinu móti ná samkomulagi við ríkisstjórnarflokkana um þessi efni. Ég þakka hv. þm. fyrir að hafa staðfest þetta.

Ég vil taka undir með hv. þm. um að það er mjög mikilvægt að nota umræðu sem þessa til þess að draga fram þá kosti sem fyrir hendi eru, þannig að fólkið í landinu geti tekið afstöðu til þess. Ég held að þarna hafi hv. þm. komið að kjarna málsins, að umræðu eins og þessa eigi að nota í þeim tilgangi.

Í framhaldi af því vil ég gjarnan spyrja hv. þm. hvaða kosti hann ætli að bjóða upp á. Hann fór mjög skilmerkilega yfir það að kostirnir gætu verið margir og mikilvægt væri að nota umræðuna til þess að velja á milli kosta. Þetta er allt satt og rétt en ef hv. þm. mundi greina örlítið betur frá því hvaða kostur það er sem hann býður upp á þá er ég sannfærður um að fólkið í landinu vill heyra það. Menn vilja ekki bara heyra skoðanir hans á því að ríkisstjórnin hafi ekki brugðist rétt við, þeir vilja líka heyra hvað hann vill gera og einhvers konar útfærslu á því. Það er ekki nóg að lýsa því með yfirborðskenndum orðum heldur verður útfæra þá kosti. Þá væri hægt að taka afstöðu til þeirra leiða sem hv. þm. vill fara þegar hann hefur flutt mál sitt.