Málefni fatlaðra

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 20:45:15 (2807)

1998-12-19 20:45:15# 123. lþ. 47.12 fundur 331. mál: #A málefni fatlaðra# (yfirfærsla til sveitarfélaga) frv. 156/1998, Frsm. KÁ
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 123. lþ.

[20:45]

Frsm. félmn. (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nál. um frv. til laga um breytingar á lögum um málefni fatlaðra frá félmn. Undir þetta álit rita allir nefndarmenn nema hvað Rannveig Guðmundsdóttir ritar þar undir með fyrirvara.

Með frv. er lagt til að frestað verði yfirfærslu á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga sem koma átti til framkvæmda 1. janúar 1999.

Með lögum nr. 161/1996, um breytingu á lögum um málefni fatlaðra, var sett bráðabirgðaákvæði þar sem tekið var fram að félagsmálaráðherra skyldi gera ráðstafanir til að undirbúa yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaga. Var jafnframt tekið fram í ákvæðinu að yfirfærslan kæmi til framkvæmda 1. janúar 1999, enda hefði Alþingi þá samþykkt þrenn ný lög, þ.e. lög um félagsþjónustu sveitarfélaga sem tækju til þeirrar þjónustu sem veitt er samkvæmt gildandi lögum um málefni fatlaðra, sérstök lög um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og lög um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga.

Á yfirstandandi ári hafa félagsmálaráðuneytinu borist beiðnir frá fjölda sveitarfélaga þar sem farið er fram á að yfirfærslunni verði frestað. Er ástæðan fyrir því fyrst og fremst sú að ekki hafa náðst samningar milli ríkis og sveitarfélaga um breytingar á fjármálalegum samskiptum þeirra.

Í máli fulltrúa félagsmálaráðuneytis kom fram að markvisst er unnið að yfirfærslunni sem er mikið og vandasamt verk. Fellst nefndin á að þó að mikilvægt sé að því starfi verði lokið sem fyrst er þó aðalatriðið að þjónusta við fatlaða verði sem best tryggð til frambúðar.

Nefndin mælir með að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Hæstv. forseti. Eftir að nefndin hafði afgreitt þetta mál frá sér barst bréf frá Þroskahjálp sem varaði við að ekki væri neina tímasetningu að finna í lögunum. Einnig barst bréf frá yfirfærslunefndinni í Reykjavík sem óskaði eftir því að ákveðin dagsetning yrði sett inn í frv. Ég hef sjálf rætt þetta mál við hæstv. félmrh. sem telur óraunhæft að setja dagsetningu inn í frv. þar sem óvíst sé hvenær þessi nauðsynlegu þingfrumvörp komi fram.

Ég vil láta þá skoðun mína í ljós að mikilvægt sé ljóst verði að það er ekki um neina breytingu að ræða af hálfu ríkisins hvað varðar yfirfærslu málefna fatlaðra. Það er greinilega hik á sumum sveitarfélögum hvað þetta varðar og það ekki að ástæðulausu. Þarna er vitanlega um mjög umfangsmikla þjónustu að ræða sem vanda verður til. Það er ljóst að ekki er vilji af hálfu hæstv. félmrh. til að leggja til ákveðna dagsetningu. Engin slík tillaga hefur komið fram af hálfu félmn.