Ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 21:00:43 (2812)

1998-12-19 21:00:43# 123. lþ. 47.14 fundur 336. mál: #A ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði# (réttur til styrkja) frv. 143/1998, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 123. lþ.

[21:00]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins láta það koma fram að í umræðum um þessa tillögu og frv. þegar það var til 1. umr. var ítarlega rætt um tillögu þeirra hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur og Lúðvíks Bergvinssonar, og það kom fyllilega fram að það mál lá hér fyrir þinginu þegar ég flutti frv. mitt.

Þar sem hv. þm. vék að því að ekki bæri aðeins að víkka námskostnaðinn, eins og gert er í þessu frv., heldur einnig að auka greiðslur til að jafna námskostnaðinn þá gerir meiri hluti fjárln. ráð fyrir því í tillögum sínum núna fyrir 3. umr. fjárlaga að þessi liður hækki um 40 millj. Í meðförum þingsins hefur þessi liður því hækkað um 65 millj., þ.e. 25 millj. vegna þessa frv. sem hér er til umræðu og síðan hefur meiri hluti fjárln. gert tillögu um að liðurinn hækki um 40 millj. þannig að alls verði varið 228 millj. kr. til þessa verkefnis á næsta ári og hefur verið jöfn hækkun á þessum lið á undanförnum árum. Ég fagna því mjög sem menntmrh. að menn líta á þetta sérstaka viðfangsefni við afgreiðslu fjárlaganna og komi til móts við þau sjónarmið sem hv. þm. nefndi og kom einnig fram í skýrslu sem ég hef lagt fyrir þingið um þessi mál þar sem rakið er nákvæmlega hvernig þessum málum er háttað.