1998-12-20 02:19:41# 123. lþ. 48.11 fundur 365. mál: #A almannatryggingar# frv. 149/1998, Frsm. meiri hluta GÁ
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 123. lþ.

[26:19]

Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Hér hefur verið haldin eldheit áróðursræða um miðja nótt. Það kemur mér að vísu ekki á óvart því að ég veit að hv. þm. á hlýtt hjartaþel þó að hjarta hans sé ekki úr gulli, þá slær það með þeim sem eiga bágt og þurfa kjarabætur. En það liggur fyrir í lok þessa kjörtímabils að með batnandi þjóðarhag er stjórnarflokkunum að takast það að ganga til þess að bæta kjör ekki bara öryrkja og aldraðra heldur þjóðfélagsþegnanna í heild sinni og í dag var stigið stórt skref og ég fann það á fulltrúum Öryrkjabandalagsins að þeir voru þakklátir fyrir þann hug sem þetta frv. bar og þær kjarabætur sem í því eru fólgnar.

Það er auðvitað ljóst að verið er að stíga skref til að minnka tekjuskerðingar á þessu fólki sem ég tel mjög mikilvægt. Þess vegna, þó að ágreiningur sé um frv., þá liggur það fyrir sem er mikilvægast að hv. þm. Össur Skarhéðinsson, sem hélt þessa eldheitu ræðu, ætlar eins og sá sem hér stendur að greiða þessu frv. atkvæði sitt. Ég býst því við að hér verði mikil samstaða um þetta mál og að það verði mörgum til hjálpar og þeir skynji að það er vilji með batnandi þjóðarhag að þetta fólk njóti þess bata sem nú blasir við í íslensku þjóðfélagi. (Gripið fram í: Hallelúja.) (SJS: Amen.)