1998-12-20 02:27:46# 123. lþ. 48.11 fundur 365. mál: #A almannatryggingar# frv. 149/1998, SvG
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 123. lþ.

[26:27]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það mál sem hér er til meðferðar er afar seint og illa fram borið af ríkisstjórninni. Hæstv. heilbrrh. hefur farið þess á leit við stjórnarandstöðuna að við reynum að hjálpa til við að ljúka þessu máli. Ég hélt að Framsfl. hefði áhuga á að ljúka málinu. Ég hélt þess vegna að það væri ekki tími til þess núna að efna til almennra stjórnmálaumræðna. Ef það er hins vegar ósk Framsfl. að það verði gert, þá er það velkomið. Ég ætla að segja eftirfarandi um þetta frv.:

Í frv. felst leiðrétting á kjörum aldraðra. Hver er hún? Hver er leiðréttingin umfram það sem gert var ráð fyrir í forsendum fjárlagafrv., raunveruleg leiðrétting hjá öldruðum? Hún er 1,76 kr. á dag. Ein króna og 76 aurar á dag. Úr því að hv. þm. Guðna Ágústssyni endist þessi risavaxna upphæð til að halda þessar messur aftur og aftur, hvað gæti hann þá ekki sagt ef eitthvað væri verið að gera í raun? Þetta er veruleikinn.

Í þessum efnum er ég ekki að vitna í neitt annað en tölur frá formanni Landssambands eldri borgara sem hafa birst í fjölmiðlum og hefur ekki verið mótmælt þannig að málflutningurinn í kringum þetta mál er ekki hafinn yfir gagnrýni. Ég fer fram á það að ef menn óska eftir því að þessum hlutum sé lokið með skikkanlegum hætti, þá séu menn ekki að fara með umdeildar fullyrðingar af því tagi sem hv. þm. fór með áðan vegna þess að þær standast ekki og það leysir engan vanda.

Staðreyndin er sú að í þessu frv. er að sögn Ragnars Aðalsteinssonar hæstaréttarlögmanns gert ráð fyrir því að efna til verulegra mannréttindabrota og Ragnar Aðalsteinsson fullyrðir að frv. eins og það lítur út stangist á við stjórnarskrána. Ég spyr hæstv. heilbrrh.: Er ríkisstjórnin og Alþingi ekki búið að fá nóg af því að fá hæstaréttardóma? Vilja menn endilega fleiri hæstaréttardóma? Halda menn að Hæstiréttur landsins hrífist af málflutningi eins og þeim sem hv. 2. þm. Suðurl. var með hér áðan? Ég fullyrði, hv. þm. og hæstv. forseti, að það leysi engan vanda. Ég óttast að þetta frv. sé í rauninni þannig að það sé á mörkunum gagnvart stjórnarskránni og mannréttindaákvæðum þess.

Það má gagnrýna stjórnarandstöðuna fyrir margt. En eitt á sérstaklega að gagnrýna stjórnarandstöðuna fyrir og það er að sýna ráðherranum þá linkind eftir þær trakteringar sem hafa verið bornar fyrir okkur í nótt, að leyfa málinu að fara í gegn á þessari nóttu vegna þess að auðvitað væri hægt að halda áfram að tala í málinu. En veruleikinn er sá að hið mikla vald, stóra vald 40 þingmanna er með þeim hætti að það er staðráðið í að ljúka málinu hvað sem við segjum. Þannig er það og við verðum að horfast í augu við það. En það leysir ekki vandann gagnvart Hæstarétti þegar kemur að málflutningi þar, þegar öryrkjar landsins stefna ríkisstjórninni þangað, þá leysir það ekki vandann gagnvart Hæstarétti að flytja ræður eins og þær sem hv. 2. þm. Suðurl. flutti hér áðan.