1998-12-20 02:45:54# 123. lþ. 48.1 fundur 370. mál: #A landmælingar og kortagerð# frv. 132/1998, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 123. lþ.

[26:45]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég býst við því að önnur og betri tækifæri gefist til þess að taka ítarlega umræðu um byggðamál og er sannarlega ekki vanþörf á því eins og þau mál eru að þróast með þjóðinni þessa dagana. Þessi nýuppkveðni hæstaréttardómur er ekki mjög byggðavænn ef menn lesa í gegnum hann og þær forsendur sem dómurinn gefur sér fyrir því að komast að þeirri niðurstöðu sem hv. þm. allir þekkja væntanlega eða a.m.k. flestir sem hafa lesið dóminn og kynnt sér niðurstöðu hans.

Ég ætla ekki heldur að rekja hann frekar í stuttu andsvari heldur segja við þann hv. þm. sem beindi til mín a.m.k. tveimur fyrirspurnum m.a. um fjölda starfsmanna sem flytja með stofnuninni, að ég greindi frá því áðan að nú þegar er um helmingur starfsmanna sem munu starfa við stofnunina eftir áramótin búsettur á Akranesi eða þar í nágrenni. Ég hygg að tveir séu reyndar búsettir í Borgarnesi. Bara það eitt mun auðvitað þegar vera farið að efla byggð á því svæði. En hinn helmingurinn eða um það bil mun aka, alla vega fyrst um sinn, milli staða. Hvað framtíð ber í skauti sér skal ég ekki segja en mér býður þó í grun að það muni smám saman þróast þannig að fleiri starfsmenn verði búsettir á Akanesi en sá helmingur sem er þar nú þegar.

Varðandi kostnaðinn þá vísa ég til þess sem er að finna bæði í fjáraukalögum sem þingið hefur nýlega samþykkt og fjárlögum fyrir næsta ár þar sem kveðið er sérstaklega á um þetta auk þess sem nokkur kostnaður hefur verið við það að byggja upp nýtt tölvukerfi, símkerfi og skjalageymslu eða aðstöðu fyrir stofnunina sem auðvitað þarf að byggja upp eða vera í stofnun og endurnýjast reglubundið hvar svo sem stofnunin starfar.